Fréttir

Tékklandsheimsókn

22. maí 2022

Þessa dagana dvelja þær Anita og Edda Björk í Tékklandi, en Síldarminjasafnið er þátttakandi í Evrópuverkefni sem snýr að uppbyggingu gamallar bruggverksmiðju.

Bruggverksmiðjan er í fjórum stórum byggingum og er svæðið um tveir hektarar. Verksmiðjan er frá árinu 1837 og var í fullum rekstri fram til 1987. Hún er staðsett í bænum Kostelec nad Černými lesy, um 60 km. austur af Prag. Núverandi eigendur, Milan Starec og Tomáš Vodochodský keyptu húsakynnin í mikilli niðurníðslu fyrir rúmum 20 árum, þá ungir námsmenn. Þeir hafa helgað sig uppbyggingu bruggverksmiðjunnar og hugsjóninni um endurreisn hennar. Í húsakynnum verksmiðjunnar reka þeir veitingastað og bar, leigja út sali til viðburða og veisluhalds og þar er jafnframt vísir að safni. Markmiðið er að ljúka við endurgerð húsanna allra, sem og tækjabúnaðarins sem notaður var til bruggunar. Gestir koma þannig til með að heimsækja einstakt safn, sem í senn verður fullvirk bruggverksmiðja, byggð á tækni og notkun tækjabúnaðar frá því um 1930.

Það verk sem þeir Milan og Tomáš hafa unnið í Buggverksmiðjunni í Kostelec er sannarlega aðdáunarvert og einstakt – en á sama tíma er verkefnið risavaxið og enn langt í land, þrátt fyrir þrotlausa vinnu í tvo áratugi. 

Fréttir