Fréttir

Tuttgasti maí

20. maí 2020

20. maí 1918 má telja einn merkasta dag í sögu Siglufjarðar. Samtímis því að heimamenn fögnuðu 100 ára verslun á staðnum öðlaðist bærinn kaupstaðarréttindi, sá sjötti á landinu. Sveit varð kauptún og nú kaupstaður.

Hátíðarhöldin hófust snemma. Klukkan 7 að morgni bergmáluðu fallbyssuskot yfir bænum, blásið var í lúðra og fánar dregnir að húni. Svo hófst skrúðganga 200 hvítklæddra barna undir leik lúðraflokks. Keppt var í íþróttum og kl. 11 hófst guðþjónusta í kirkjunni. Söngflokkur steig á blómum skreytt svið undir blaktandi fánum og söng tvö frumort ljóð tileinkuð Siglufirði, eftir Matthías Jochumsson og Pál J. Árdal, við ný lög séra Bjarna Þorsteinssonar. Þá flutti sr. Bjarni aðalhátíðarræðuna og að henni lokinni hrópaði mannfjöldinn nífalt húrra fyrir Siglufirði. Loks var dans stiginn fram á morgun - hafði hátíðin þá staðið í sólarhring. Margt aðkomufólk var viðstatt og komu tvö vélskip frá Akureyri „hlaðin farþegum og fánum skreytt”.

Fyrr á þessu ári eignaðist Síldarminjasafnið eintak af dagskrá hátíðarinnar, sem prentuð var í Siglufjarðarprentsmiðju árið 1918. Meðfylgjandi ljósmyndir sýna hluta hennar; forsíðuna, dagskrána og ljóðin tvö sem samin voru sérstaklega vegna af þessu tilefni. Gripurinn lætur á sjá, enda orðinn 102 ára gamall – en er afskaplega dýrmætur.

Fram á sæinn, Siglfirðingar!
særinn ljet oss takmörk sett;
verum hafsins hervíkingar,
heimtum beint vorn óðalsrétt!
Byggjum nú á nýjum tíma
nýjan stað með fögur torg.
Lifi frjáls í sögn og síma
Siglufjarðar hjeraðs borg!

Í tilefni dagsins var fáni dreginn að húni á Róaldsbrakka, sem og víða annarsstaðar í bænum.




EPSON015

EPSON016EPSON017EPSON018




Fréttir