Fréttir

Varðveislurými í Salthúsi tekið til notkunar

5. mar. 2020

Frá árinu 2014 hefur Síldarminjasafnið unnið að endurreisn Salthússins, 18. aldar húss sem upphaflega kom til landsins frá Hvítahafsströnd Rússlands. Húsið er á tveimur hæðum, um 600 fermetrar. Stærstur hluti hússins mun þjóna hlutverki varðveislurýmis eða safngeymslu, fyrir safneign Síldarminjasafnsins. En þar að auki skapast rými fyrir nýjar sýningar, safnverslun og veitingasölu.

Varðveislurýmin tvö eru bæði á efri og neðri hæð hússins. Á efri hæðinni verður viðkvæmari hluta safnkostsins komið fyrir, t.a.m. textíl, málverkum, húsbúnaði og húsgögnum. Á neðri hæðinni verða grófari gripir varðveittir; vélar, verkfæri, veiðarfæri og annað slíkt. Í Salthúsinu er jafnframt svokallað forvörsluherbergi, en þar mun aðstaða starfsfólks batna stórlega hvað varðar vinnu við móttöku og yfirferð safngripa; að skrá, hreinsa gripi, pakka þeim og ljósmynda áður en þeim verður komið til geymslu eða sýningar. 

Nú, í upphafi árs, er framkvæmdum við varðveislurýmið á efri hæð hússins lokið - svo innan skamms verður hafist handa við að flytja gripi og muni úr núverandi geymslum í Salthúsið til framtíðarvarðveislu. 
Það er starfsfólki safnsins sannarlega mikið gleðiefni að geta tekið fyrsta hluta hússins til notkunar - en að því sögðu er rétt að taka fram að enn er langt í land að allt húsið verði fullklárað. 

Frá því að húsviðunum var siglt frá Akureyri sumarið 2014 hafa verið lagðar tæplega 100 milljónir í endurreisn hússins. Verkefnið hefur hlotið víðtækan stuðning auk framlags safnsins sjálfs. Stærstu styrkirnir til þessa hafa komið frá Forsætisráðuneytinu sem veitti styrk til að flytja húsið og reisa það, Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem veitti stofnstyrk til uppbyggingar hússins. Þar að auki hafa Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarsjóður, Fjallabyggð, FÁUM og Safnaráð stutt við framkvæmdirnar. 

Fréttir