Fréttir

Veruleg fjölgun gesta frá fyrra ári

31. des. 2021

Nú er síðasti dagur ársins runninn upp og óhætt að segja að árið hafi komið okkur á óvart að mörgu leyti. Síðustu tvö ár hafa einkennst af heimsfaraldri kórónaveirunnar – og fundum við verulega fyrir fækkun ferðafólks á síðasta ári þegar safngestum fækkaði um rúmlega helming. Líðandi ár hófst með áframhaldandi samkomutakmörkunum og bjuggum við okkur undir óbreytt ástand. Sumarið fór hægt af stað – en gestum fór svo verulega fjölgandi eftir því sem á leið. Í fyrsta sinn urðu gestir í ágústmánuði fleiri en í júlí, sem alla jafna er stærsti mánuður ársins. September og október komu okkur svo algerlega í opna skjöldu og færðu okkur á fjórða þúsund gesti! Gestir ársins voru rétt rúmlega 20.000 talsins – sem gerir 73% aukningu milli ára! Síldarsaltanir á planinu við Róaldsbrakka voru 27 og skipulagðar leiðsagnir um safnið 359 og hafa aldrei verið fleiri.

Til viðbótar við gestamóttöku sinnti starfsfólk safnsins skráningu og faglegum störfum af kappi auk þess sem framkvæmdum í Salthúsinu hefur miðað vel áfram á haust- og vetrarmánuðum.

Starfsfólk Síldarminjasafnsins óskar vinum, velunnurum og öllum þeim sem heimsótt hafa safnið velfarnaðar á nýju ári og þökkum fyrir það gamla. 

Fréttir