Fréttir

Vettvangsferð til Reykjavíkur

20. apr. 2020

Í febrúar sl. héldu starfsmenn Síldarminjasafnsins til Reykjavíkur í þeim tilgangi að kynna sér aðstæður í safngeymslum og varðveislurýmum hjá Þjóðminjasafni Íslands, Árbæjarsafni og Ljósmyndasöfnum Íslands og Reykjavíkur. Á næstu misserum verður varðveislurými í Salthúsinu tekið til notkunar og þarf að vanda vel til verka við innréttingu og notkun á rýminu, uppsetningu á forvörsluherbergi, flokkun á safnkosti, hreinsun og pökkun gripa osfrv. Því þótti kjörið að starfsfólk safnsins leitaði sér þekkingar hjá stærstu söfnum landsins sem hafa þróað safngeymslur sínar mikið á síðastliðnum árum og búa að dýrmætri reynslu.

Kollegar á höfuðborgarsvæðinu tóku afar vel á móti starfsfólki safnsins. Á fjórum dögum var farið nokkuð víða. Fyrsta degi ferðarinnar var varið á Ljósmyndasafni Íslands í Vesturvör, þar sem sérútbúnar ljósmyndageymslur voru skoðaðar og rætt um skráningarkerfi og mögulegar útfærslur á ljósmyndageymslu Síldarminjasafnsins. Öðrum degi var varið í nýju varðveislu- og rannsóknarsetri Þjóðminjasafnsins að Tjarnarvöllum í Hafnarfirði. Þar var afar áhugavert að sjá hvernig ólíkir gripir eru varðveittir við mismunandi aðstæður og hve góðar og víðfemar starfsstöðvarnar eru. Á þriðja degi var haldið á Árbæjarsafn þar sem nokkrar ólíkar safngeymslur voru skoðaðar. Byrjað var í Vörðunni, nýju varðveisluhúsi, þar sem textílar, listmunir og húsgögn eru varðveitt og svo var haldið í almenna munageymslu og sjóminjageymslu – auk þess sem litið var á Koffortið, opna geymslu safnsins. Á fjórða og síðasta degi ferðarinnar var Ljósmyndasafn Reykjavíkur við Tryggvagötu heimsótt. En þar var afar áhugavert að sjá hvernig safnið hefur sniðið sér stakk eftir vexti og komið sex milljónum ljósmynda fyrir í ansi þröngum húsakynnum.

Það er starfsfólki Síldarminjasafnsins dýrmætt að geta leitað til kollega hvað varðar hina ýmsu þætti faglegs safnastarfs. Með tilkomu Salthússins munu varðveisluaðstæður á Síldarminjasafninu breytast verulega og því afar mikilvægt að gera hlutina vel. Það voru því ótal þættir sem voru ræddir og skoðaðir í umræddum heimsóknum. Allt frá hillukerfum, brunavörnum, umbúðum og almennu skipulagi í safngleymslum að praktískum atriðum við flutning á safnkosti, skráningarvinnu, skipulagi skráningarkefa og forgangsröðunar verkefna.

Síldarminjasafnið hlaut símenntunarstyrk frá Safnaráði til ferðarinnar – og eru ráðinu færðar bestu þakkir fyrir. 

Fréttir