Fréttir

Viðgerðir á bátum safnsins

25. okt. 2018

Það er líf og fjör í bæði Slippnum og Bátahúsinu þessa vikuna. Átta þátttakendur eru á árlegu bátasmíðanámskeiði og takast þeir á við viðgerðir á tveimur bátum safnsins undir handleiðslu Hafliða Aðalsteinssonar. Báðir bátarnir eru hluti af fastasýningu í Bátahúsinu. 

Búið er að smíða nýtt afturmastur á Draupni, að fyrirmynd þess gamla sem var orðið illa fúið, og verður því komið fyrir á sínum stað og gengið frá segli, stögum og öðru tilheyrandi. Þar að auki fer fram viðgerð á Brávallabátnum, nótabát frá því um 1950. Endursmíði á nótarennum, plittum og ganneringu, og viðgerð á þóftu eru meðal verkefna sem þátttakendur glíma við. 

Sem fyrr segir eru átta manns á námskeiðinu; ýmist nemar í trésmíðum, starfsmenn safna eða áhugamenn um bátasmíði og viðhald gamalla báta.

Gestum og gangandi er velkomið að líta í heimsókn!


Nýtt afturmastur á Draupni í smíðum


Spáð og spekúleraðEndursmíði á nótarennu á Brávallabátnum

Fréttir