Fréttir

Vildarvinir Siglufjarðar veita styrk

15. jún. 2022

Föstudaginn 10. júní sl. fór fram styrkafhending Vildarvina Siglufjarðar í Róaldsbrakka, en félagið var stofnað árið 2008 í þeim tilgangi að vinna að áhugaverðum menningar- og félagslegum verkefnum á Siglufirði og stuðla að eflingu byggðarinnar á sviði ferðaþjónustu og annarrar atvinnustarfsemi.  

Vildarvinir Siglufjarðar hafa frá stofnun styrkt mjög mörg verkefni á Siglufirði auk þess sem félagið setti sér snemma það markmið að tryggja að veglega yrði haldið upp á 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar á árinu 2018. Stærsta verkefnið tengt afmælinu var að ná að fjármagna og láta framleiða fimm sjónvarpsþætti um sögu Siglufjarðar – „Siglufjörður – saga bæjar“. Voru þættirnir teknir til sýninga í upphafi árs 2020 og heppnuðust sérstaklega vel.

Samhliða vinnslu sjónvarpsþáttanna söfnuðu Vildarvinir kvikmyndaefni frá fyrri tíð og létu yfirfæra það á stafrænt form. Allt það efni var afhent Fjallabyggð og Síldarminjasafninu til varðveislu. Efnið sem safnað var tekur yfir 70 klukkustundir í sýningu og veittu Vildarvinir Síldarminjasafninu fjárstyrk til að standa straum af kostnaði við kaup á tækjabúnaði til að miðla efninu á aðgengilegan hátt. Á Síldarminjasafninu gesta áhugasamir nú skoðað efnið á snertiskjám.

Á síðasta aðalfundi Vildarvina Siglufjarðar var ákveðið að slíta félaginu eftir 14 ára starfsemi og var styrkúthlutunin því sú síðasta í nafni félagsins. Síldarminjasafnið hlaut 500.000 kr. styrk til kaupa á tækjabúnaði en að auki var veittur fjárstyrkur til Ljóðaseturs Íslands, Alþýðuhússins og Fríðu Gylfadóttur.

Forsvarsmenn Síldarminjasafnsins þakka Vildarvinum kærlega fyrir veittan stuðning - og hvetja áhugasama jafnframt til að líta við í Róaldsbrakkanum og skoða gömul myndbrot og kvikmyndaefni sem nú er öllum aðgengilegt.

 

Fréttir