Fréttir

Vilt þú gerast bakhjarl Síldarminjasafnsins?

8. jún. 2020

Undanfarin ár hafa gestir safnsins verið hátt í þrjátíu þúsund árlega – og hvert árið á fætur öðru hafa gestamet verið slegin og hlutfall erlendra gesta hækkað. Sívaxandi fjöldi gesta og ánægja þeirra hefur verið starfsfólki safnsins sem byr í seglin og orðið til þess að stöðugildum hefur fjölgað og verkefnum sinnt af krafti. Sökum heimsfaraldurs kórónaveirunnar er ljóst að veruleg breyting verður á þetta árið.

Safnið er sjálfseignarstofnun og nýtur fjárframlaga frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélaginu Fjallabyggð. Tekjur af aðgangseyri og annarri þjónustu við safngesti eru veigamikill þáttur í rekstri safnsins og nema að jafnaði um 60% af nauðsynlegu rekstrarfé á ári hverju. Nú þegar hafa um 170 hópar afbókað komu sína, eða um 90% þeirra sem von var á í vor og sumar, og ljóst að tekjutapið mun telja í það minnsta þrjátíu milljónir króna. Af þeim sökum er rekstur safnsins í verulegu uppnámi og allra leiða leitað til að tryggja að afleiðingar þessa ástands muni ekki kosta safnið þann dýrmæta þrótt og framtakssemi sem þar hefur lengi ríkt og það er þekkt fyrir.

Samhliða gestamóttöku og miðlun sögunnar sinnir starfsfólk safnsins jafnframt faglegu safnastarfi, rannsóknum og skráningu af metnaði, árið um kring. Verkefnin eru fjölbreytt og sem dæmi má nefna að undanfarin misseri hefur mikil vinna verið lögð í safnkennslu og aukið samstarf við skóla, greiningar á ljósmyndum í samvinnu við eldri borgara úr hinum mikla ljósmyndakosti sem varðveittur er á safninu, heimildaöflun um líf fólks í síldarvinnu – með viðtölum víða um land, endurskoðun á sýningum safnsins og bókaútgáfu. Þekking og reynsla starfsmanna er verðmæt og framlag safnsins til íslensks safnastarfs hefur þótt eftirtektarvert og til fyrirmyndar.

Í þessari erfiðu stöðu kallar Síldarminjasafnið nú til samfélagsins og býður einstaklingum og fyrirtækjum að styðja við starfsemi þess til framtíðar með árlegu framlagi. Uppbygging Síldarminjasafnsins hefur að mörgu leyti verið einstök og má þakka fórnfýsi, velvilja og framtíðarsýn sjálfboðaliða fyrir þann góða grunn sem lagður var og leiddi til áframhaldandi vaxtar safnsins. Nú er þess farið á leit við almenning á nýjan leik að stutt verði við starfsemi safnsins, en þó með öðrum hætti, til að tryggja áframhaldandi blómlega starfsemi. Hægt er að velja um að leggja safninu til 5.000 kr., 30.000 kr. eða 350.000 kr. árlega auk þess sem boðið er upp á frjálst framlag. Áhugasamir fylli út meðfylgjandi eyðublað með því að smella á gráa hnappinn hér að neðan.

Í þakklætisskyni fyrir veittan stuðning viljum við gefa á móti - og munu því allir þeir sem gerast bakhjarlar safnsins njóta ókeypis aðgangs að safninu allan ársins hring, en fyrir hærri framlög býðst jafnframt að nýta sér þjónustu safnsins.

 


  • 5,000 kr. árlega
    ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu allan ársins hring.

  • 30,000 kr. árlega
    ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu allan ársins hring.
    einkaleiðsögn um sýningar safnsins, með síldarsmakki og brennivínsstaupi, fyrir allt að tíu gesti.

  • 350,000 kr. árlega
    ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu allan ársins hring.
    einkaleiðsögn um sýningar safnsins, með síldarsmakki og brennivínsstaupi, fyrir allt að fimmtíu gesti.
    afnot af Bátahúsi Síldarminjasafnsins til einkaviðburðar einu sinni á ári.

  • Frjáls framlög - upphæð að eigin vali

Samtakamáttur almennings, bæði einstaklinga og fyrirtækja, skipar stóran sess í sögu safnsins – en fyrir tilstilli sjálfboðaliða og einstakrar framtíðarsýnar varð safnið til í þeirri mynd sem við þekkjum það í dag. Við leyfum okkur því að biðla til almennings á ný, svo sækja megi fram af þrótti.

Fréttir