Fréttir

Vistaskipti við Ljósmyndasafn Reykjavíkur

27. feb. 2024

Nýverið dvaldi Edda Björk, sérfræðingur á sviði fræðslu og miðlunar, vikulangt í Reykjavík þar sem hún fór til svokallaðra vistaskipta við Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Tilgangur dvalarinnar var að læra af kollegum, nýta kunnáttu og þekkingu þeirra og staðfæra hana að faglegu starfi Síldarminjasafnsins við skráningu og meðhöndlun ljósmynda í safnkostinum. Ljósmyndasafn Reykjavíkur hefur lengi notast við skráningarkerfið Fotostation til að halda utan um ljósmyndaskráningar sínar og fetar Síldarminjasafnið nú í fótspor þeirra með það að markmiði að koma góðri reiðu á þær miklu upplýsingar sem fylgja nær 200.000 ljósmyndum sem varðveittar eru í safninu.

Edda naut góðrar leiðsagnar þeirra Gísla, Siggu Stínu, Hlínar og Kristínar á Ljósmyndasafni Reykjavíkur og fékk kennslu á Fotostation auk þess sem hún fékk að skoða ljósmyndageymslurnar og leggja sitt af mörkum til greiningar á gömlum ljósmyndum frá Siglufirði.

Safnasjóður veitti Síldarminjasafninu símenntunarstyrk til vistaskiptanna – og eru færðar bestu þakkir fyrir.

Fréttir