Fréttir

Westward Ho í heimsókn

23. jún. 2020

Næstkomandi mánudag, 29. júní, siglir Færeyski kútterinn Westward Ho til hafnar á Siglufirði. Um er að ræða sögulegt skip sem byggt var í Grimsby árið 1884 og er því nærri 140 ára gamalt. Skipið var keypt til Færeyja 1895 og gert út til bæði þorskveiða og síldveiða fram til 1964. Westward Ho er einn þriggja kúttera sem Færeyingar varðveita með glæsibrag. Stórir hópar sjálfboðaliða manna áhafnir skipanna og stunda enn millilandasiglingar og heiðra þannig sögu þeirra og tryggja að verkkunnátta við siglingar og viðhald tréskipa glatist ekki.

Í gömlum tollabókum sem varðveittar eru á Síldarminjasafninu var skipið skráð við síldveiðar á Siglufirði árið 1948 – og er því ekki um fyrstu heimsókn þess til Siglufjarðar að ræða. Áhöfn skipsins hefur skipulagt fjögurra daga heimsókn í samvinnu við Síldarminjasafnið og verður almenningi boðið að heimsækja áhöfnina og hljóta leiðsögn um skipið.

Áætlað er að Westward Ho sigli til hafnar og leggi að bryggju við Róaldsbrakkann síðdegis á mánudag og hvetja starfsmenn Síldarminjasafnsins bæjarbúa og aðra gestkomandi til að taka vel á móti skipinu og þiggja heimboð Færeyinga. 

Fréttir