Pækilspaði


Pækilspaði var notaður við fyrstu pæklun síldartunnu. Eftir að ,,lagað var ofan á“ eftir söltun eða ,,ápökkun“ eins og það var kallað og var tunnan pækilfyllt með hjálp pækilspaða og botninn að lokum sleginn í. Pækilspaðanum var rennt niður á milli sílda og tunnubúksins og honum þrýst inn svo bil myndaðist á milli sem pæklinum var hellt í og þannig var tryggt að pækillinn kæmist ofan í tunnuna í stað þess að hella honum ofaná þar sem hann hripaði hægt milli síldarlaga. (Hannes Baldvinsson )

Í Handbók síldarverkunarmanna eftir Magnús Vagnsson, útgefin á kostnað Síldarútvegsnefndar 1939 stendur um pækilspaða á bls. 18-19: ,,Pækilspaði er ekki margbrotið áhald, en þó er heldur sjaldséður spaði, sem ekki er líklegur til að hrufla eða skemma síldina. Spaðarnir eiga að vera þunnir (tunnustafaþykkt). Slétt telgdir, horna-, stalla- og randalausir, og ætti að hafa nægar birgðir af þeim, svo ekki þurfi að þrífa til þess sem hendi er næst, þegar pæklað er.“ Benedikt Sigurðsson lýsir pækilspaða svona: ,,Tréspaði, ekki ólíkur árarblaði í lögun, sem rekinn var niður milli tunnustafa og síldar þegar bætt var pækli í opnar síldartunnur. Ekki mikið notaður; tunnustafur kom að sömu notum ef honum var beitt með lagni svo hann rifi ekki síldina.“ (Benedikt Sigurðsson. Orð úr máli síldarfólks).