Fréttir

Safninu fært gamalt Siglufjarðarmálverk að gjöf

27. júl. 2015

Laugardaginn 18. júlí sl. komu hjónin Sigurður Ágústsson og Erla Björg Guðrúnardóttir færandi hendi á Síldarminjasafnið með málverk frá Siglufjarðarhöfn eftir Kristján H. Magnússon. Gjöfin er frá móður Sigurðar, Rakel Olsen og fjölskyldu hennar. Rakel Olsen rak ásamt manni sínum Ágústi Sigurðssyni stærsta skelfiskframleiðslufyrirtæki landsins í Stykkishólmi um áratugi. Einnig er Rakel þekkt fyrir að hafa beitt sér mjög fyrir vernd og viðgerð gamalla húsa í Stykkishólmi. Sigurður sonur hennar stýrir nú fyrirtækinu, Sigurður Ágústsson ehf, og kona hans Erla Björg er framkvæmdastjóri Marz Seafood.

Höfundur málverksins, Kristján H. Magnússon, 1903-1937, var einn fárra Íslendinga sem nam málaralist í Bandaríkjunum. Þótt hann ætti talsverðri velgengni að fagna þar vestanhafs um skeið naut hann sín ekki á heimaslóðum þótt verk hans bæru vott um leikni og skólaða kunnáttu. Þekkt er eitt verk hans frá Siglufirði 1935 og mun það vera myndin sem Síldarminjasafninu hefur nú eignast. Sjá:  http://www.sild.is/sildarsagan/sildin-i-myndlist/

Rakel Olsen og fjölskyldu hennar eru færðar kærar þakkir og kveðjur fyrir góða gjöf.

Fréttir