Myndlistin og síldin

Þegar orðið síld er notað hér í samhengi við myndlist er fyrst og fremst átt við fólkið, sjómenn og verkakonur í síldarvinnu á miklum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar. Sá tími, 1900-1968,  hefur jafnan verið nefndur síldarárin eða síldarævintýrið.

„Upphaf íslenskrar myndlistar fellur saman við öld þegar hið gamla er í upplausn en hið nýja enn í bernsku. Sjálfir eiga hinir ungu listamenn sem ríða á vaðið engar erfðir, enga forna listmenningu við að styðjast.“ Svo ritar Emil Thoroddsen í bókinni Íslensk list, útg. 1943.
Ungir myndlistarmenn nýrrar aldar urðu að taka mið af gamalgróinni menningararfleifð Evrópuþjóða og það varð sá grundvöllur sem list þeirra stóð á eins og aðrar greinar í hinni ungu borgaralegu menningu Íslendinga. Þó þessi grunnur væri traustur, listrænt og sögulega séð, reyndist mörgum erfitt að feta sig áfram með sjálfstæðum hætti á þeim umbrotatímum sem í hönd fóru. Byltingarkenndar hugmyndir og stefnur tókust á við gömul viðhorf og hefðir. Hverjum skyldi listin þjóna? Íhaldsömum smekk þeirra sem keypt gátu myndverkin, réttlætishugsjónum alþýðunnar, eigin lögmálum í leit að fullkomnun eða einfaldlega innri sjón og draumlyndi listamannsins sjálfs? Þetta má eflaust allt finna í verkum þeirra listamanna sem verður getið hér á eftir og jafnvel gætti hjá einum hinnar róttæku formbyltingar abstraktsjónarinnar.   
 
Hinir eldri í þessum hópi máluðu jafnan samkvæmt hefðinni rómantískar landslags- og þjóðlífsmyndir og síðan má merkja anda hins þjóðfélagsbundna expressiónisma í verkum þeirra sem síðar komu. Þessir málarar sem hér um ræðir höfðu leitað sér menntunar í gamalgrónum listaskólum Evrópu. En líkt og sú leit hafði borið þetta fólk suður um álfuna þá var innblástur og efniviður verka þess sóttur um langan veg á hestbaki eða á skipsfjöl á afskekktar slóðir þeirra eigin lands. Þegar flett er riti Björns Th. Björnssonar um íslenska myndlist ber nafn eins staðar oftar fyrir en annarra þegar sagt er frá leit listamanna að malerískum plássum. Það er síldarbærinn Siglufjörður. Einn hafði þar sumardvöl, annar staldraði við og enn aðrir ólust þar upp með myndlist hinna eldri á áberandi stöðum. Myndir sem höfðu jafnvel farið til sýningar í listasölum Parísar og New York.

Raunin var sú að að þessi afskekkti bær var sem í alfaraleið þegar stór hluti þjóðarinnar sótti þangað sumarvinnu í marga áratugi. Þar var fólkið í litríkri vinnu sinni, í striti eða gáska, með síldarhúsin, skipin og fjöllin í bakgrunni. Sólskinið litaði síldarpilsin skærgul og fjörugur dans var stiginn við dillandi harmonikuspil. Athyglisvert er að aðrir staðir en Siglufjörður koma lítt eða ekkert við sögu gagnvart viðfangsefninu, síldin í myndlistinni.
Á þessu skeiði í listasögunni var maðurinn mjög algengt myndefni málara, og þá helst hinn vinnandi maður, alþýðan. Sjómaðurinn í myndum Gunnlaugs Scheving, hafnarverkamaður hjá Snorra Arinbjarnar og saltfiskverkunarkonur í verkum Jóhannesar Sveinssonar, Ásmundar Sveinssonar og Kristínar Jónsdóttur. Og sveitafólkið var málað af Scheving, Sveini Þórarinssyni og Júlíönu Sveinsdóttur. Og loks er það síldarfólkið, viðfangsefni þessa þáttar.
Fjöldi slíkra mynda er til - og hafa þær raunar verið unnar allt fram á síðustu ár sem rómantískar minningarmyndir. Sýning með helstu verkum sem hér um ræðir var haldin í Gallerí Gránu á Síldarminjasafninu 2004.
Þá er og fjöldi ljósmynda af „síldarmálverkum“ til sýnis í möppu á Síldarminjasafninu sé þess óskað.

Til hliðar hér í kaflanum er greint frá þeim listmálurum sem tengja má við fyrirbærið „síldarmyndlist“. 

Ragnar Páll og Örlygur Kristfinnsson setja upp sýninguna á Gránulofti 2004.