Gústi guðsmaður

Í beitningaskúrnum í Bátahúsinu er til sýningar á litlum skjá stuttmynd um líf Gústa guðsmanns, unnin af Örlygi Kristfinnssyni og Dúa Landmark. Beitningaskúrinn er tileinkaður Gústa og öðrum trillusjómönnum 20. aldar. Fyrir utan skúrinn stendur tréskúlptúr af Gústa guðsmanni eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur sem hún sjálf, Glitnir og Siglfirðingur hf. gáfu safninu fyrir nokkrum árum. Þá liggur við bryggjuna Sigurvin, bátur Gústa, sem hagleiksmaðurinn Njörður og faðir hans, Jóhann Sigurðsson, endursmíðuðu með styrk frá Siglfirðingi hf.

Við hlið skjámyndarinnar í beitningaskúrnum er að finna söfnunarkút. Þar er leitast við að viðhalda fórnfúsu lífsstarfi hans – og þar stendur:

Í anda Gústa Guðsmanns
Allur peningur sem safnast í þennan kút fer óskiptur til hjálpar bágstöddum börnum í þriðja heiminum í samstarfi við ABC barnahjálp.

Gústi guðsmaður

Ágúst Gíslason fæddist í Dýrafirði á Vestfjörðum árið 1897 og dó 1985 á Siglufirði – en þar hafði hann búið í hartnær sextíu ár. Á ungdómsárum sínum sigldi hann um öll heimsins höf og kynntist fjarlægum þjóðum og misjöfnum kjörum þeirra. Guðstrúin, sem amma hans innrætti honum ungum, efldist honum í hjarta á ferðum hans og leiddi hann til einveru og meinlætalífs í þeim helga tilgangi að gefa og hjálpa þeim sem hann taldi standa höllum fæti í lífinu og höfði ekki kynnst Guði og syni hans Jesúm Kristi.

Nær allir þeir fjármunir sem hann aflaði með fiskveiðum á langri ævi runnu til kristniboðs barna víða um heim.
Á sunnudögum prédikaði hann á Torginu í miðbæ Siglufjarðar – en fáir hlustuðu á hann nema hann færi að skammast út í óvininn mikla, kommúnismann – og þá gat hann bölvað rækilega – í stuttu hléi frá guðsorðinu.

Fyrir trú sína og verk var hann kallaður Gústi guðsmaður. Alla tíð voru sagðar af honum sögur. Hvernig hann fórnaði öllu fyrir köllun sína og treysti drottni í tæpri siglingu í vondum veðrum – eða þegar hann týndist í þoku á bátnum sínum og fannst í heiðríkjubletti úti á hafi baðaður sólskini og sálmasöng í góðu fiskiríi.

Skúlptúr Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur af Gústa í Bátahúsinu