Kvikmyndin og síldin

Heimildir eru til um tökur heimildarkvikmynda á Íslandi árið 1904 en elsta kvikmyndin sem varðveist hefur er frá árinu 1906. Fyrsta leikna kvikmyndin var tekin á Íslandi árið 1919 þegar danska myndin Borgerslægtens historie (Saga Borgarættarinnar) var gerð eftir sögu Gunnars Gunnarssonar á vegum Nordisk Film. Fyrsta leikna kvikmyndin, eftir Íslending, var stutt gamanmynd Lofts Guðmundssonar, Ævintýri Jóns og Gvendar, 1923. Tveimur árum síðar var fyrsta íslenska heimildamyndin um land og þjóð sýnd, Ísland í lifandi myndum, einnig eftir Loft Guðmundsson. Þar leikur síldin stórt hlutverk. Varla voru gerðar slíkar heimildamyndir á næstu áratugum án þess að síldin kæmi verulega við sögu. Og má jafnvel lesa úr sumum þeirra að þjóðlífið hafi snúist að talsvert miklu leyti um síldina; síldveiðarnar, síldariðnaðinn og mannlífið á síldarstöðunum. Lék Siglufjörður þar að jafnaði stórt hlutverk. Allar þessar kvikmyndir eru einstakar heimildir um þann óvenjulega tíma í sögu landsins, þegar þjóðin tókst á við ný og krefjandi verkefni á mörkum frumstæðra atvinnuhátta og nútíma tækni.

Loftur Guðmundsson
(1892-1952) ljósmyndari sýndi fyrstu heimildakvikmynd um land og þjóð, Ísland í lifandi myndum, árið 1925 og var hún tekin víða um land sumarið áður. Myndin er þögul en með skýringartexta á milli atriða. Stór hluti myndarinnar fjallar um síldveiðar og athafnalífið á síldarbryggjunum á Siglufirði og ögn á Akureyri.
Í sjávarútvegskvikmynd Lofts frá árunum 1936 – 38 eru miklir síldarkaflar af veiðum, söltun, bræðslu og útflutningi. Myndin er sýnd á Síldarminjasafninu. Hér má sjá stutt myndbrot:

https://vimeo.com/86493524

Kapteinn André M. Dam, orlogskafteinn í danska sjóhernum, ferðaðist um Ísland sumrin 1938 og 1939 og vann að landkynningarkvikmynd sinni Billeder fra Island. Gengið var frá efni sem filmað var fyrra sumarið til sýningar í kvikmyndahúsi (ca. 50 mín) með þulartexta og sérsaminni fallegri tónlist. Þögul mynd með efni beggja sumra var gefin út á 16mm filmu á stríðsárunum (ca 1941) undir titlinum Den underfulde ö til sýningar í skólum. En upp úr hinni fullgerðu 1938-mynd var hins vegar gerð styttri útgáfa á ensku, Iceland, til sýningar á Heimssýningunni í New York 1939-40.
Billeder fra Island var gefin út á þýsku undir titlinum Island, Paradis des Nordens. Stutta enska útgáfan er hnitmiðuð og fjörleg enda meir í ætt við kynningarmynd en heimildarmynd. Til gamans má nefna að sérstök sýning var á Billeder fra Island í Nýja Bíó á Siglufirði, líklega árið 1939. Allar útgáfur eru varðveittar á Kvikmyndasafni Íslands og í Danska kvikmyndasafninu. Hér má sjá stutt myndbrot:

https://vimeo.com/86493523

Sigurður Guðmundsson (1900-1986) ljósmyndari í Reykjavík dvaldi á Siglufirði 1941 á vegum Stórstúku Íslands og tók 16 mm kvikmynd í lit – ca. 12 mín. Myndin er talsett á íslensku, en textinn tengist að takmörkuðu leyti efni myndarinnar. Myndin er sýnd á Síldarminjasafninu. Varðveitt á Kvikmyndasafni Íslands. Hér má sjá stutt myndbrot:

https://vimeo.com/86493530

Kjartan Ó. Bjarnason (1901-1981) prentari, en fékkst við kvikmyndaferð í 30-40 ár. Myndaði á síldarbryggju á Siglufirði á fimmta áratugnum. Kvikmynd sína Sólskinsdagar á Íslandi sýndi hann tvisvar fyrir fullu húsi á Siglufirði í september 1956. Einnig myndaði hann á skíðamóti á Siglufirði 1960. Kvikmyndir hans eru varðveittar á Kvikmyndasafni Íslands.

Magnús Jóhannsson

(?) útvarpsvirki tók 5 mín. mynd á síldarplönum Siglufjarðar 1957 – sýnd á Síldarminjasafninu. Varðveitt á Kvikmyndasafni Íslands. Hér má sjá stutt myndbrot:

https://vimeo.com/86493525

Ólafur Ragnarsson (1944-2008) bókaútgefandi. Tók talsvert af 8 mm kvikmyndum í síldinni á Siglufirði á árunum 1960-1965. Myndirnar í einkaeign. Sem starfsmaður Sjónvarpsins kom hann að gerð heimildarmyndar um mannlíf á Ströndum og þar er fjallað um uppbyggingu síldarverksmiðjunnar í Ingólfsfirði.

Þorgeir Þorgeirson (1933-2003). Kvikmyndagerðarmaður og skáld. Kvikmynd hans, Maður og verksmiðja, fékk heiðursverðlaun á kvikmyndahátíðinni Edinburgh Film Festival, 1968. Myndin 10 mín. löng án tals eða texta en að mestu hljóðsett með vélagný og tónlistareffektum. Hún lýsir með sérstæðum og listrænum hætti starfsmönnunum í síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn 1967. Myndin er sýnd á Síldarminjasafninu.

Erlendur Sveinsson (1948-) og Sigurður Sverrir Pálsson. Silfur hafsins, heimildarmynd gerð fyrir Síldarútvegsnefnd 1979-1987. Vönduð mynd um síldarsöltun, síldveiðar og sölu saltsíldar frá upphafi vega og fram til ársins 1987.

Erlendur Sveinsson (1948-). Verstöðin Ísland. Myndin er í fjórum hlutum og rekur sögu íslensks sjávarútvegs frá miðöldum til nútímans, þar koma síldveiðar og síldarverkun við sögu. Var framleidd fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna í tilefni af 50 ára afmæli félagsins 1989.

Birgir Sigurðsson: Svartur sjór af síld – þrír þættir (3x50 mín). Farið yfir síldarævintýri Íslendinga til sjós og lands. Voru sýndir á RÚV 1991.

Hjónin Halla og Hal Linker, bandarískir heimildarmyndargerðamenn, kvikmynduðu á Siglufirði og víðar 1945-1950. Hlutar þeirrar myndar hafa verið til notkunar á Stöð 2 um skeið.

Woody og Steinunn Vasulka: Síldin á Seyðisfirði. Tékknesk heimildarmynd sem fangar mannlíf og umhverfi síldaráranna á Seyðisfirði 1964. 12 mín, svart-hvít, með tékknesku tali. Til sölu á Tækniminjasafninu á Seyðisfirði og Síldarminjasafninu. Hér má sjá stutt myndbrot:

https://vimeo.com/86493527

Brynjar Stautland o.fl.:  Det salte sölvet. Heimildarmynd gerð af Nordisk Film AS 1989. Um Síldveiðar norðmanna á Íslandsmiðum.

* * *

Þessi skrá er ekki tæmandi og eflaust koma fleiri myndir og atvinnu- eða áhugakvikmyndagerðarmenn við sögu. Ætla má að flestir þeirra séu á skrá Kvikmyndasafns Íslands.

Að lokum nokkur nöfn sem nýst gætu áhugasömum:

Anna Weber, Árni Stefánsson, Ásgeir Long, Eðvarð Sigurgeirsson, Gísli Bjarnason, Guðmundur Einarsson, Íslandsmynd Rússa, Jón Ármann Héðinsson, Paul Burket, Provision Svíþjóð, Sillfiske, Sverige Television, Sören Sörenson.