Síldarsagan - stutt

Síldarævintýri Íslendinga (1867-1968)
Síldin er einn helsti örlagavaldur Íslendinga á þessari öld og án hennar er vafasamt að hér hefði byggst upp það nútímasamfélag sem við þekkjum í dag. - Íslenskur söguatlas 3. bindi bls.40
Um aldamótin 1900 kynntust íslenskir sjómenn og útgerðarmenn nýrri tækni til fiskveiða. Stórfelldar þorsk- og síldveiðar hófust með vélskipum og afkastamiklum veiðarfærum. Nýr tími var runninn upp með hraðstíga samfélagsumbótum. Aldalangri stöðnun og fátækt var létt af þjóðinni.
Góð síldarsumur í heimskreppunni á 4. áratugnum, þegar þorskmarkaðirnir erlendis lokuðust, hafa líklega tryggt þjóðinni efnahagslegt sjálfstæði og átt sinn þátt í því að árið 1944 öðluðust Íslendingar fullt frelsi eftir 5 alda yfirráð Dana.
Atburðirnir í kringum síldina voru sem ævintýri fyrir íslensku þjóðina - síldarævintýrið mikla sem stóð í 100 ár.

Áhrif Norðmanna
Upphafið má rekja til seinni hluta 19. aldar þegar Norðmenn hófu síldveiðar í landnót á Austfjörðum og í Eyjafirði og fluttu saltsíld í stórum stíl til Noregs.
Norskir útgerðarmenn komu sér fyrir víða á þessum stöðum, keyptu sjávarlóðir, byggðu hús og bryggjur og höfðu mikil áhrif á þróun atvinnulífs og þéttbýlis svo sem á Seyðisfirði og Eskifirði.
Hafís og harðindi bundu fljótt enda á síldveiðar hér við land.
Árið 1903 komu Norðmenn á nýjan leik til síldveiða við Íslandsstrendur. Stór skipafloti þeirra veiddi í reknet úti á opnu hafi við Norðurland. Um svipað leyti hófu þeir tilraunir með snurpinótaveiðar sem gáfust afar vel.
Nýir síldarbæir urðu til og hundruð landsmanna fengu vinnu hjá Norðmönnum við síldarverkun.
Íslendingar urðu fljótt fullir þátttakendur í þessu nýja ævintýri og tóku smám saman veiðarnar og sölumálin í sínar hendur, um leið og áhrif Norðmanna dvínuðu hér á landi. Til marks um það söltuðu Íslendingar árið 1916, í fyrsta sinn, í fleiri tunnur en Norðmenn á Íslandi.

Iðnaður og afurðir
Saltsíld var mörgum Evrópuþjóðum mikilvæg fæða, ekki síst á þrengingartímum heimsstyrjaldanna.Síldin var einkum flutt út til Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands, Rússlands, Þýskalands og Bandaríkjanna.
Sú síld sem ekki var söltuð fór í bræðslu, þar sem unnið var úr henni lýsi og mjöl. Mjölið var notað sem húsdýrafóður víða um Evrópu en lýsið fór til margs konar efnaiðnaðar t.d. sápugerðar.
Mörg ár var verðmæti síldarafurða um 35% af heildar útflutningstekjum Íslendinga en að jafnaði um 25%.
Fyrstu síldarverksmiðjurnar risu á Siglufirði árið 1911. Síðar áttu stærri og fullkomnari verksmiðjur eftir að "mala gull" á öllum helstu síldarstöðunum og með sanni má segja að bræðsluiðnaðurinn hafi verið fyrsta stóriðja Íslendinga.

"Síldin kemur og síldin fer"
Svipull er sjávarafli - góð og slæm síldarsumur skiptust á þótt hin góðu hafi verið tíðari. Eftir lélega síldveiði á árunum um og eftir 1950 fór síldin að veiðast sem aldrei fyrr, því Íslendingar höfðu haft forystu um að þróa nýja og afkastameiri veiðitækni, sem aðrar þjóðir tileinkuðu sér síðar.
Á þessum árum veiddist síldin æ meir austur af landinu og árið 1965 tók alveg fyrir veiðar við Norðurland vegna sjávarkulda. Gömlu síldarbæirnir fyrir austan risu upp sem ný stórveldi í síldarútveginum, en ævintýrið stóð ekki lengi.
Árið 1969 hvarf síldin. Hinn stóri norsk-íslenski síldarstofn var ofveiddur og ábyrgðina báru mestu síldveiðimenn þess tíma, Norðmenn, Íslendingar og Sovétmenn.
Hvarf síldarinnar varð íslensku síldarbæjunum og þjóðinni allri mikið áfall í atvinnu- og efnahagslegu tilliti. Á þessum árum hafði allt að helmingur útflutningsteknanna verið af síldarafurðum og þjóðin búið við mikla hagsæld.
Hinn gullni tími síldarævintýrisins var að baki.

Síldarbæirnir
Þeir staðir sem síldin setti verulega mark sitt á eru Bolungarvík, Ingólfsfjörður, Djúpavík, Skagaströnd, Dalvík, Hjalteyri, Dagverðareyri, Krossanes, Akureyri, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Eskifjörður og Reyðarfjörður.
Hvergi hafði síldin þó slík áhrif sem á Siglufirði.

Síldin á Sigló
Siglfirðingar tala oft um tvö landnám Norðmanna, hið fyrra þegar Þormóður rammi nam Siglufjörð um 900, og hið síðara árið 1903. Þá hófust hinar miklu norsku síldveiðar, sem leiddu til þess að í Siglufirði byggðist frægasti síldarbær í heimi.
Á 40 árum varð lítið og fámennt þorp að fimmta stærsta bæ landsins með yfir 3000 íbúa. Allt snerist í kringum síldina. Hún var söltuð á 23 söltunarstöðvum og brædd í 4 verksmiðjum.
Lengst af var Siglufjörður einhver mikilvægasta höfn landsins og nokkrum sinnum fór síldarútflutningur frá Siglufirði yfir 20% af öllum útflutningi landsmanna.
Í þessum "Klondyke Atlantshafsins" ríkti hin sanna gullgrafarastemning síldarævintýrisins. Síldarspekúlantar komu og fóru, ýmist vellauðugir eða blásnauðir og verkafólk í tugþúsundatali sótti þangað atvinnu í gegnum tíðina.
Í brælum lágu þar hundruð síldarskipa af mörgu þjóðerni. Fólksmergðin í bænum var stundum eins og á strætum stórborga og óvíða var mannlífið litríkara eða fjörugra.