100 ára bræðslusaga

Það var árið 1911 sem Norðmenn reistu fyrstu lýsis- og fiskimjölsverksmiðjurnar á Íslandi. Síðan hafa þær risið í tugatali með ströndum landsins – fyrst í eigu útlendinga og síðar Íslendinga. Rekstur þessara fyrirtækja hefur löngum verið kallaður fyrsta stóriðja Íslendinga. Afkastageta verksmiðjanna hefur numið þúsundum tonna á sólarhring og malað eigendum sínum gífurlegan auð þegar vel hefur árað. Stundum kom fyrir að bræðslusíldin og saltsíldin færðu landsmönnum nær helming þjóðarteknanna. Því hefur síldin verið nefnd silfur hafsins og gull Íslands – og af loðnunni hefur margur orðið loðinn um lófana. En svipull er sjávar afli og aldrei er á vísan að róa segir hið fornkveðna.

Árið 2012 unnu starfsmenn Síldarminjasafnsins, Örlygur Kristfinnsson og Anita Elefsen, að gerð sögusýningar um 100 ára sögu bræðslu- og lýsisiðnaðar í landinu. Sýningin er sett upp á fimmtán söguskiltum og er nú hluti sýningarinnar í Gránu, bræðsluhúsi safnsins - en auk þess ferðast hún sem farandsýning um landið.

Sýningin var opnuð á Jónsmessuhátíð Síldarminjasafnsins í júní 2012. Efnt var til málþings í Gránu og voru þar flutt hin fjölbreytilegustu erindi. Meðal fyrirlesara voru Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, Guðmundur Óskarsson fiskifræðingur hjá HAFRÓ og Jón Reynir Magnússon fyrrum framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja Ríkisins.

Eftirtaldir aðilar styrktu Síldarminjasafn Íslands við gerð sýningarinnar og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir: Félag Íslenskra Fiskmjölsframleiðenda, Menningarráð Eyþings, Menningarráð Austurlands, Hafrannsóknarstofnun.

Hér að neðan má sjá fjögur dæmi af fimmtán söguskiltum sýningarinnar Fiskimjöls- og lýsisiðnaður í 100 ár.

 

Djúpavíkurverksmiðjan var byggð 1934-35 á hinum afskekktasta stað og var talin meðal fullkomnustu síldarverksmiðja heimsins og ein stærsta bygging landsins. Öll byggingarvinna við verksmiðjuna var unnin með handafli. Eftir tveggja sumra rekstur var hún orðin skuldlaus og allar tekjur fram til ársins 1954 urðu hreinn hagnaður. Þá var henni lokað vegna hráefnisskorts.

 


Geysileg veiði Hvalfjarðarsíldarinnar veturinn 1946 – 1947 varð til þess að keypt var frá Ameríku hið fullkomnasta bræðsluskip, Hæringur - tæpar 7.000 smálestir að stærð. Afkastagetan nam 10.000 málum síldar á sólarhring. Reynslan af þessum rekstri varð ein hrakfara- og skuldasaga. Áður en Hæringur var seldur til Noregs, árið 1954, höfðu  einungis 13.850 mál síldar verið brædd í skipinu á fjórum árum og skuldir fjórfaldast.

 

Nýjar bræðsluverksmiðjur voru byggðar víða á Austfjörðum eftir 1950. Þegar síldarstofninn fór að venja megingöngur sínar á Austfjarðamið eftir 1960 risu þær sem nýtt stórveldi í íslenskum mjöl- og lýsisiðnaði. Samtímis lögðu þær norðlensku smám saman upp laupana – hver á fætur annarri.  Alls voru starfræktar verksmiðjur á 14 stöðum á Austurlandi. Myndin hér að ofan sýnir Paul-verksmiðjuna í Neskaupstað.


 

Hvaða fiskar verða að mjöli og lýsi?

Síld, Clupea harengus (25-38 sm.) er sú fiskitegund í Norðurhöfum sem mest hefur verið veitt af til bræðslu. Hún skipar stærsta og mikilvægasta sess í sögu lýsis- og fiskimjölsiðnaðar á norðurhveli jarðar. Árleg veiði íslenskra skipa og báta hefur verið 50 – 650 þús. tonn.

Loðna, Mallotus villosus (13-20 sm.) hefur verið mjög mikilvægur nytjafiskur Íslendinga eftir að síldin hvarf um 1968. Árleg veiði hefur numið frá 50 þús. tonnum upp í 1200 þús. tonn.

Kolmunni, Micromesistius poutassou (30-40 sm.) Íslendingar hófu kolmunnaveiðar djúpt suðaustur af landinu 1972 en þær voru litlar framan af. Eftir 1995 jukust veiðarnar og náðu hámarki 2003 er veiddust 500 þús. tonn. Síðan hafa veiðarnar dregist saman og er árlegur afli nú um 100 þús. tonn. Kolmunninn er af þorskaætt og reynist rýr til lýsisframleiðslu.

Makríll, Scomber scombrus (30-40 sm.) Makrílveiðar Íslendinga hófust árið 2006 austur og suðaustur af landinu. Fyrstu árin fór hann að mestu til bræðslu en fljótt þróaðist vinnsla hans til manneldis. Afli Íslendinga hefur vaxið úr 4.000 tonnum árið 2006 í um 110 – 150 þús. tonn. 

Karfi, Sebastes marinus (33-42 sm.) Íslendingar stunduðu allmiklar veiðar á karfa á Nýfundnalandsmiðum um miðbik 20 aldar. Nokkuð var brætt af þessum afla í síldarverksmiðjum landsins, en síðustu áratugina hefur allur karfaafli farið til manneldis.