Ljósmyndin og síldin

Fjölmargir ljósmyndarar lögðu leið sína um síldarbryggjur síldarbæja 20. aldar og ljósmynduðu hið iðandi athafnalíf söltunarstöðvanna eða stórkarlalega véltækni verksmiðjanna. Mun sjaldgæfara var að menn með góðar myndavélar fylgdust með veiðunum og lífinu um borð í síldarskipunum. Ljósmyndir þessarra manna veita afar mikilvæga innsýn í síldarárin og eru samtímis dýrmætar heimildir um þá veröld sem var. Hér á eftir er skrá yfir helstu ljósmyndara sem tengjast síldarsögunni með tilvísun í ljósmyndasöfn.

Bjarni Þorsteinsson (1861-1938) prestur og tónskáld á Siglufirði. Meðal margs sem sr. Bjarni tók sér fyrir hendur var ljósmyndun. Sagan segir að hann hafi keypt myndavél sína þegar í Danmörku 1899. Elstu myndir hans virðast vera frá því um 1904-1905 – ákaflega merkilegar sögulega séð. Ljósmyndir hans eru varðveittar á Síldarminjasafni Íslands og Ljósmyndasafni Íslands. Á hvorugum staðnum eru þær beinlínis aðgengilegar en afla má frekari upplýsinga hjá starfsmönnum þessara safna.  http://ljosmyndasafnislands.is/

Ljósmynd: Bjarni Þorsteinsson

Axel Friðbjarnarson (1896-1921) ljósmyndari rak ljósmyndastofu á Siglufirði 1918-1920, en starfaði samhliða sem síldarmatsmaður.  Plötu og filmusafn hans er glatað.

Vigfús Sigurgeirsson (1900-1984) ljósmyndari bjó lengst af  í Reykjavík en ferðaðist víða um land til ljósmyndunar. Vitað er fyrir víst að hann kom til Siglufjarðar árið 1925 og 1938 og tók fjölda frábærra mynda. Talsverðan fjölda slíkra mynda má skoða í möppu á Síldarminjasafninu en meginsafn glerplatna og filma Vigfúsar er varðveitt á Ljósmyndasafni Íslands. Upplýsingar: http://ljosmyndasafnislands.is/

Einar Kristjánsson (1898-1960) starfaði sem efnafræðingur á Siglufirði og Akureyri. Hann tók mikinn fjölda ljósmynda á Siglufirði frá því um 1930 til 1948. Filmusafn hans sem telur um 3000 myndir er varðveitt á Ljósmyndasafni Íslands. Upplýsingar: http://ljosmyndasafnislands.is/

Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson

Kristfinnur Guðjónsson (1896-1974) ljósmyndari starfaði sem atvinnuljósmyndari á Siglufirði frá 1935-1960. Mikið filmusafn hans og ljósmyndir eru varðveittar á Ljósmyndasafni Siglufjarðar:  http://myndasafn.siglo.is/ Myndir frá síldarárunum má t.d. í flokkunum atvinnulífið og sjávarútvegur. Langflestar ljósmyndir Kristfinns eru af fólki og teknar á ljósmyndastofu hans, Ljósmyndastofu Siglufjarðar. Á Síldarminjasafninu eru til sýnis möppur með myndum hans.

Björn Björnsson (1889-1977) kaupmaður á Norðfirði – Áhugaljósmyndari og tók skipulega myndir á síldarbryggjum Norðfjarðar. Myndir hans eru varðveittar í Skjala- og myndasafni Norðfjarðar. Ekki aðgengilegar á netinu. http://skjalasafn.fjardabyggd.is/page.asp?id=20110224160956216880

Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson

Steingrímur Kristinsson (1934-) vann margvísleg störf til sjós og lands og var einstakur áhugamaður um ljósmyndun. Hann tók gríðarlegan fjölda ljósmynda í tengslum við atvinnu- og mannlífið á Siglufirði um áratugi frá 1959. Einnig myndaði hann sem starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins mikið um borð í síldarflutningaskipinu Haferninum og einnig á Raufarhöfn, Seyðisfirði og Reyðarfirði. Mikið filmusafn hans og ljósmyndir eru varðveittar á Ljósmyndasafni Siglufjarðar:  http://myndasafn.siglo.is/  Myndir frá síldarárunum má t.d. í flokkunum atvinnulífið og sjávarútvegur. Á Síldarminjasafninu eru til sýnis möppur með myndum hans.

Þorsteinn Jósepsson (1907-1967) var kunnur blaðamaður, rithöfundur og ljósmyndari. Hann tók fjölda ljósmynda á ferðum sínum um landið sem hafa mikið heimildagildi. Þar er heimsókn hans til Siglufjarðar 1959 mjög athyglisverð. Myndasafn hans er varðveitt á Ljósmyndasafni Íslands. Upplýsingar: http://ljosmyndasafnislands.is/

Sigurður B. Jóhannesson (1933-) kennari. Ljósmyndir hans frá Raufarhöfn 1953-1962 eru afar þýðingarmiklar í sögulegu tilliti. Einnig myndaði hann nokkuð á Siglufirði 1960.  Sjá myndasíðu hans: http://photosbj.is

Ljósmynd: Haukur Helgason

Haukur Helgason (1933-) skólastjóri í Hafnarfirði var ungur maður á síld, stundaði síldveiðar í tvö eða þrjú sumur seint á sjötta áratugnum og hafði með sér góða myndavél - og skráði með henni sjómannslífið úti á hafi með einstæðum hætti. Munu ljósmynda-heimildir Hauks frá þessu sjónarhorni vera mjög sjaldgæfar á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Einnig tók hann myndir á Dalvík, Raufarhöfn og Siglufirði. Sjá heimasíðu hans: http://www.myndverk.is/Sild.html  Haukur hélt sýningu á myndum sínum á Siglufirði 1999 – sú sýning er varðveitt á Síldarminjasafninu og er tilbúin sem farandsýning.

Snorri Snorrason (1931- 2012) flugstjóri í millilandaflugi um aldarþriðjungs skeið. Meðfram starfi sínu var hann mikill áhugamaður um ljósmyndun. Meðal annars liggur eftir hann mikið safn skipa og mikilvægar síldarmyndir frá Siglufirði um 1960. Á Síldarminjasafninu er til sýnis mappa með myndum hans frá Siglufirði um 1960. Sjá:  http://snorrason.is/main.php?g2_itemId=436187

Ljósmynd: Hannes Baldvinsson

Hannes Baldvinsson (1931-) síldarmatsmaður. Ljósmyndaði margt á síldarbryggjum Siglufjarðar 1957-1965. Næmt auga hans fyrir viðfangsefninu gerir myndir hans afar áhugaverðar. Sýning á verkum hans var haldin á Gránuloftinu sumarið 2007, og fór síðan víða milli sjóminjasafna á næstu tveimur árum. Sýningin er varðveitt á Síldarminjasafninu og er tilbúin sem farandsýning.

Ólafur Ragnarsson (1945-2008) bókaútgefandi tók mikið af ljósmyndum í síldinni á Siglufirði á árunum 1958-1965. Myndirnar eru í einkaeign.

Júlíus Júlíusson (1927-2004) kennari á Siglufirði, Áhugaljósmyndari og  var ötull safnari siglfirskra ljósmynda. Myndasafn hans í mörgum möppum einkennist mjög af atburðum síldaráranna.

Jón Dýrfjörð (1931-) vélvirki á Siglufirði. Jón hefur frá unga aldri tekið ljósmyndir af því sem áhugavert var í umhverfinu. Einnig hefur hann safnað miklum fjölda ljósmynda frá atvinnu- og bæjarlífinu á Siglufirði í tímans rás.

Hér má sjá norskar síldveiðimyndir.

Hér má sjá hollenskar síldarmyndir.