Bein hf.

eftir Benedikt Sigurðsson


Stofnfundur "H/f Fiskimjölsverksmiðja Siglufjarðar" var haldinn á Akureyri 13. des. 1928. Tilgangurinn með félagsstofnuninni var að koma upp fiskimjölsverksmiðju til " … að hagnýta fiskiúrgang þann er við hingað til mestmegnis höfum kastað í sjóinn, svo og til að kaupa hráefni af öðrum til viðbótar".

Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Anton Jónsson, Alfons Jónsson, Jón Loftsson, Einar Malmquist Einarsson og Páll Friðfinnsson. Varamaður Ingvar Guðjónsson. Endurskoðendur voru Haraldur Guðmundsson og Guðmundur Skarphéðinsson, til vara Jón Kristjánsson.

Stofnendur og stofnfé þeirra:

  • Anton Jónsson útgm., Akureyri, 5000 kr.
  • Alfons Jónsson lögfr., Siglufirði, 1000 kr.
  • Einar Malmquist Einarsson útgm., Akureyri 5000 kr.
  • Guðmundur Skarphéðinsson skólastj., Siglufirði 1000 kr.
  • Haraldur Guðmundsson útgm., Akureyri 1000 kr.
  • Ingvar Guðjónsson útgm., Akureyri 3000 kr.
  • Jón Kristjánsson útgm., Akureyri 2000 kr.
  • Matthías Hallgrímsson útg.stj., Siglufirði 1000 kr.
  • Jón Loftsson útgm., Reykjavík 2000 kr.
  • Páll Friðfinnsson útgm., Dalvík 2000 kr.
  • Skafti Stefánsson útgm., Siglufirði 2000 kr.
  • Steindór Hjaltalín útgm., Akureyri 1000 kr.

Hlutafé var ákveðið 50 þús. kr. Þar af skráðu ofantaldir menn sig fyrir 26 þús. krónum á stofnfundinum. Stjórninni var falið " … að annast um á allan hátt að koma upp fiskimjölsverksmiðju fyrir næstu sumarvertíð á Siglufirði, eða svo fljótt sem auðið er".

Á fyrsta stjórnarfundinum, sem haldinn var sama dag og stofnfundurinn, skipti stjórnin með sér verkum. Anton var formaður, Malmquist ritari og varaformaður og gjaldkeri Alfons Jónsson. Samþykkt var að reyna að fá Gustav Blomquist fyrir verksmiðjustjóra. Alfons var falið að tryggja lóðarrými fyrir verksmiðjuna og var lagt til að reyna að fá lóð "Ísbjarnarins" að Hafnargötu 11, Siglufirði. Jóni S. Loftssyni heildsala var falið að leita eftir láni úr Fiskimálasjóði, allt að 50 þús. kr. og stjórnin tók boði hans um að fela honum að athuga um vélakaup fyrir verksmiðjuna í fyrirhugaðri ferð hans til útlanda innan skamms. Var honum gefið fullt umboð til þessara starfa.

Næsti fundur sem bókaður er í fundargerðabókina var stjórnarfundur haldinn 7. nóv. 1929. Heitir nú félagið h/f Bein. Að öðru leyti virðist félagið vera hið sama. Fundurinn var haldinn á Siglufirði. Þar var meðstjórnandanum Jóni S. Loftssyni gefið umboð til allt að 8000 kr. lántöku, gegn veði í verksmiðjueign félagsins að Hafnargötu 11 á Siglufirði ásamt lóð, palli, bryggju og öðru venjulegu fylgifé slíkra eigna. Umboðið veita Anton, Alfons og Malmquist.

Aukafundur í félaginu var haldinn á Akureyri 2. febr. 1930. Hann sóttu átta menn, þar af þrír sem ekki hafa verið nefndir áður sem félagsmenn, Walter Sigurðsson, Gustav Blomquist og Jón E. Sigurðsson. Þar kemur fram að Jón Loftsson og Gustav Blomquist hafa farið utan til undirbúnings kaupum á vélum og byggingarefni. Verksmiðjan hafði orðið miklu dýrari en áætlað var í fyrstu. Rekstur hafði byrjað í miðjum ágústmánuði, líklega 1929. Fram kom að hagur félagsins var slæmur; ekki hafði enn tekist að fá hagkvæmt lán og eina sjáanlega leiðin til að bæta úr væri að auka hlutaféð upp í allt að 200 þús. kr.. Var sú leið samþykkt á fundinum og hlutafjársöfnun hafin. Fiskimjöl h/f, Reykjavík, skráði sig fyrir 50 þús. kr., Walter hét 5 þús., Anton 3 þús., Malmquist 2 þús. og Gustav Blomquist, Jón Kristjánsson, Haraldur Guðmundsson, Steindór Hjaltalín og Jón E. Sigurðsson þúsund krónum hver, alls 65 þús. kr.

Næsti fundur var haldinn 16. júní 1930 á Siglufirði. Heimilað var að ráða Magnús Blöndal bókara og gjaldkera, en Alfons Jónsson hafði hætt því starfi og krafa hans um 1% þóknun af öllum greiðslum félagsins vegna var lögð til hliðar um sinn. Fram kemur að ólag hefur verið á verksmiðjunni og að leitað hefur verið eftir að fá fagmann frá fiskimjölsverksmiðju af sömu gerð í Grimsby til athugunar og ráðgjafar við reksturinn.

Aðalfundur var haldinn 10. júlí 1930 á Siglufirði. Þar var samþykkt stofnun hlutafélagsins "Fiskimjöl h/f", Siglufirði, og samþykkt lög fyrir það. Stjórnina skyldi skipa þremur mönnum. Kosnir voru Anton, Walter og Einar Malmquist, en Jón Gíslason verslunarmaður á Siglufirði til vara. Þessir þrír fóru með atkvæði Fiskimjöls h/f í Reykjavík, 30 atkvæði hver, en Alfons Jónsson með 3 atkvæði fyrir „Ísbjörninn".

Á stjórnarfundi á Akureyri 11. júlí var Anton endurkosinn formaður. Samþykkt var að færa í tal við Gustav Blomquist að hann segði upp starfi sínu án þóknunar, en ella að stjórnin segði honum upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti, sökum almennrar óánægju með störf hans. Um leið var samþykkt að fela Walter að ráða Karl Runólfsson í stað Gustavs, ef hann fengist með sanngjörnum kjörum. Antoni Jónssyni var veitt prókúra fyrir félagið. Walter og sérfræðingnum frá Grimsby, Hallowday, var falið að semja greinargerð um ástand verksmiðjunnar og breytingar sem gera þyrfti.

Á stjórnarfundi sem haldinn var á skrifstofu Fiskimjöls h/f í Reykjavik 10. nóv. 1930, mættu Anton Jónsson og Walter Sigurðsson og einnig tveir menn úr stjórn Fiskimjöls h.f. í Reykjavík, þeir "General Consul Ásgeir Sigurðson og stórkaupmaður Sigurður Sigurðsson". Ræddar voru breytingar á búnaði verksmiðjunnar þ.e. að kaupa gasþurrkofn af h.f. Fiskimjöl á Ísafirði, byggja tvo flutningabáta undir blaut bein, geymsluhús fyrir þurr bein og mjöl og setja yfirhitun á annan gufuketilinn.

Aðalfundur 1931 var haldinn 5. maí á Siglufirði. Reikningar voru samþykktir og í stjórn voru kosnir Malmquist, Walter og Jón Kristjánsson, en Jón Gíslason verslunarstjóri varamaður; endurskoðendur Alfons og Haraldur Guðmundsson. Fram kom að framkvæmdastjóra höfðu engin laun verið greidd í þau tvö ár sem félagið hafði starfað. Endurskoðendur reifuðu þá hugmynd að Fiskimjöl h.f. í Reykjavík tæki við verksmiðjunni til eignar og umráða. Walter Sigurðsson kvað það þurfa að ræðast í stjórn þess félags. Alfons Jónsson taldi að leita ætti skaðabóta frá Kampens Mekaniske Værksted í Osló vegna breytinga á vélunum s.l. ár.

Stjórnarfundur var haldinn 6. maí 1931 á Siglufirði. Walter var kosinn formaður en Jón Kristjánsson ritari. Samþykkt var 2500 kr. þóknun fyrir ýmis aukastörf árið 1930. Samþykkt var að ráða Pálma Pétursson til sex mánaða sem yfirmann yfir rekstrinum. Rætt var um flutning og losun beina, mjölsala skyldi vera háð samþykki meirihluta stjórnarinnar, útbúa skyldi skrifstofuherbergi í verksmiðjuhúsinu og leita álits lögfróðra manna um skaðabótarétt gagnvart Kampens Mekaniske Værksted. Samþykkt var að fara í mál við Gustav Blomquist og krefjast endurgreiðslu á umboðslaunum sem hann tók án heimildar á móti vegna vélakaupanna fyrir h/f Bein. Ræddur möguleiki á að koma upp lifrarbræðslu í tengslum við verksmiðjuna. Á framhaldsfundi daginn eftir tjáði Pálmi Pétursson sig fúsan til að taka að sér áðurgreint starf hjá verksmiðjunni.

Á fundi 24 mars 1933 var rætt símskeyti frá h/f Fiskimjöl í Rvík þar sem þess var krafist að h/f Fiskimjöl á Siglufirði yrði gert gjaldþrota. Bæjarfógeti á Siglufirði hafði gert lögtak í eignum félagsins vegna útsvars og vinnulauna. Samþykkt var að setja tryggingar í eignum vegna þessara krafna. Þá var samþykkt að auglýsa aðalfund og segja Pálma Péturssyni upp starfi.

Aðalfundur var síðan haldinn á Siglufirði 27. apríl 1933. Tilboð hafði komið frá h/f Fiskimjöl í Reykjavík um að framselja kröfu sína á hendur félaginu fyrir kr. 20 þús. Ræddir voru möguleikar á framhaldsstarfsemi og kosnir menn úr stjórninni til ráðuneytis um þau mál.

Framhaldsaðalfundur. var haldinn 20. júní á Siglufirði. Samþykkt var að taka nýju tilboði frá h/f Fiskimjöl í Reykjavík um að lækka kröfu sína í 5000 kr. á tveimur árum, en tilskilja um leið að hlutabréf félagsins í Fiskimjöl á Siglufirði verði afhent án greiðslu. Þá var samþykkt að félagið skyldi hér eftir heita Bein h/f. Í stjórn voru kosnir Malmquist Einarsson, Alfons Jónsson og Jón Kristjánsson.

Hér lýkur bókunum í fundargerðabókina, sem varðveitt er í Héraðsskjalasafni Siglufjarðar. Nokkur bréf, skeyti og reikningar fylgja bókinni. Af plöggum frá síðustu mánuðum ársins 1933 má sjá að þá hefur félagið verið komið í fjárþrot og harðar innheimtuaðgerðir á hendur því verið hafnar, m.a. hefur Pálmi Pétursson gert kröfu á hendur fyrirtækinu vegna ógreiddra launa.