Samtíningur

eftir Benedikt Sigurðsson

Svipull er sjávarafli

Einn þeirra norsku útgerðarmanna sem sóttu á Íslandsmið í byrjun aldarinnar var Hans W. Friis útgerðarmaður og kaupmaður í Álasundi. Eitt skipa hans var á lúðuveiðum við Ísland 1902 og 1904 gerði hann það út til leitar að löngu- og lúðumiðum við Ísland og fór sjálfur með (1). Árið 1905 kom hann með þrjú skip til veiða við Suðvesturland og keypti um vorið stóra sjávarlóð með tveim nýbyggðum sjóhúsum af Ágústi Flygenring kaupmanni í Hafnarfirði. Var staðurinn nefndur Svendborg. Í júlí flutti hann tvö skipanna til Austfjarða með bækistöð á Seyðisfirði. Árið l906 sendi hann þrjú skip til síldveiða með herpinót, tók á leigu lóð sunnan við Hvanneyrará á Siglufirði og kom þar upp skúr (2). Sveinn Jónsson, kunnur bryggjusmiður á Siglufirði, keypti þennan skúr síðar, flutti hann að Steinaflötum og stækkaði hann. Árið 1907 var Friis talinn einn verkfærra karlmanna í Hvanneyrarhreppi og bar þar 70 kr. útsvar. Jafnframt taldist hann til góðborgara Hafnarfjarðar; hann og skipstjórar hans voru meðal boðsgesta í hátíðarveislu þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindi og sýslumaðurinn hlóð hann lofi í hátíðarræðu.

En veraldargengið er valt. Verðfall á saltfiski 1908 lék þennan athafnamann svo grátt að hann varð gjaldþrota. Einar Þorgilsson í Hafnarfirði keypti Svendborg og seldi hana aftur Bookless Bros í Aberdeen. Verslunin í Álasundi og skipin hurfu í skuldahítina og Friis flutti til Ameríku.

1.  Hovland, Kari Shetelig. Norske Islandsfiskere på havet, Bergen, 1985, bls. 31–32.
2. Ole A. Tynes. Minningar um fyrstu daga síldveiðanna í Siglufirði. Þýtt og endursagt af Sigurði Björgólfssyni. (Vélrit á Héraðsskjalasafni Siglufjarðar).


Útsvör útlendinganna

Hlutdeild útlendinga í útsvörunum á Siglufirði á ýmsum tímum:

  • 1904 37%
  • 1905 50%
  • 1910 64%
  • 1913 70%
  • 1915 89%
  • 1919 39%
  • 1924 59%
  • 1932 26%

 

Heimild talnanna fyrir árin 1904–1915 er hreppsbók Hvanneyrarhrepps og mega þær teljast öruggar. Um árin 1919, 1924 og 1932 er farið eftir blaðafregnum sem sumar slepptu lægstu útsvörunum og gætu þar að auki hafa brenglast í prentun. Ber því fremur að líta á þær sem vísbendingar en sem örugga vissu.

Útlend eru talin fyrirtæki og einstaklingar af erlendum uppruna, þótt undir íslenskri lögsögu væru eða hefðu íslensk borgararéttindi. Hvergi er gert ráð fyrir erlendu eignarhaldi á bak við fyrirtæki sem skráð voru á nöfn íslenskra manna.

Alls staðar er miðað við fyrstu niðurjöfnun, áður en kærur voru afgreiddar.


Síldarútflytjendur 1915

Sumarið 1915 var gott söltunarsumar og síðasta árið sem Norðmenn söltuðu meira á Íslandi en Íslendingar. Veldi Norðmanna á Siglufirði komst hæst á þessu ári. Þá báru þeir tæp 90 % útsvaranna í hreppnum. Hér fara á efir nöfn þeirra sem í útsvarsskránni voru titlaðir annaðhvort síldarútflytjendur eða síldarútgerðarmenn:

O. Alsaker, T. Bakkevig, Oskar Berntsen, Thorvald Björnson, Ragnvald Blindheim, gufuskipið Dania, Knud Demmen, Gustav Evanger, Olav Evanger, Franznæs, Frisvold, Garvik,Gausdal, Sören Goos, Gravdal, Gústaf Grönvold, Grindhaug, Gudmunds Rederi, Hanken, Christen Havsteen, Henriksen, Kr. Hjemland, Knut Huse, Hövik, síldarskipið Hjalteyrin, Edvin Jacobsen, O. Jacobsen, P. Jangaard, Kjærstad, M. Knudsen, Kalnes, H. Langvad, Lykke, K. Nordstrand, L. Nordstrand, Carl Olsen, Tönnes Olsen, Bernhard Petersen, Pilskog, Elias Roald, Jacob Roald, Konrad Roald, Knud Roald, Ragnar Ólafsson, H. Rappen, Chr. Riise, Rohrmann, Ingv. Solberg, Solunder, S. Spjutö, S. Stave, Reidar Stockfleth, Sund, Sundgot, Svalbards Rederi, H. Söbstad, Ole Tynes, C. A. Wallen, John Wedin, Peter Worren, Ytraland, Olav Öhlen.

Af þessum rúmlega 60 gjaldendum eru líklega sex íslenskir. Á skrána hér að ofan vantar hins vegar nöfn 5–6 íslenskra aðila sem sennilega hafa saltað og selt síld, en eru ekki titlaðir sem sem saltendur eða síldarkaupmenn í útsvarsskránni.

Skotar kenna síldverkun

Blaðið Siglfirðingur skýrir frá því 29. júlí 1933 að nokkrar skoskar stúlkur hafi verið fengnar til að kenna síldverkun á Siglufirði. Ennfremur hafi nokkrir skoskir karlmenn umsjón með síldverkun í bænum.

Godtfredsen leiðangursstjóri

Í grein um síldarútgerð útlendinga 18. júlí 1931 segir Siglfirðingur að danskur leiðangur sé nú hér á miðunum. Leiðangursstjóri sé A. Godtfredsen sem í fyrra hafi verið hér með eitt skip, Fulton, en sé nú með 14 skipa útgerð, móðurskipið Hans Tausen, skipin Fulton og Thorvald Stauning, og ellefu færeyska kúttera.

Leyfisveitingar

„Voru svo 3 næturverðir skipaðir 7. ágúst gegn 5 kr. borgun hver yfir hverja nótt og höfðu þeir starf sitt á hendi til 25. september.”

„Í ágúst leyfði hreppsnefndin á aukafundi norskum manni, Martin Andersen, að hafa hér Skydebane gegn því að hann borgaði 10 kr. á viku í hreppssjóð.”

(Úr Hreppsbók Hvanneyrarhrepps 1915.)

Útsvör lögð á síldarsaltendur

„Jafnað niður sem aukaútsvörum rúmum 34 þúsundum. Voru 15 aurar lagðir á hverja útflutta tunnu þeirra útlendinga er í landi búa og nokkra fleiri; 10 aurar á hverja tunnu hjá þeim, er söltuðu á höfninni og borguðu áður en þeir fóru, og 5 aurar á tunnuna hjá nokkrum innlendum. Átta aurar voru lagðir á hverja máltunnu er brædd hafði verið.”

(Úr fundargerð hreppsnefndar Hvanneyrarhrepps 16. nóv. 1915.)

Bæjarstarfsmaður fær telefón

Á hreppsnefndarfundi 16. nóv. 1916 var rædd umsókn Gunnlaugs Þorfinnssonar um að hreppsjóður greiddi notendagjald fyrir telefón er hann hefur í hyggju að fá sér. "Hreppsnefndin ákvað að helmingur notendagjaldsins, eða kr. 18 árlega, skyldi greiða, 9 kr. af rafleiðslu og 9 kr. af vatnsleiðslu meðan þeir feðgar eru riðnir við stofnanir þessar."

Tekjur verkafólks á Siglufirði 1937

Í skýrslu vinnumiðlunarskrifstofu Siglufjarðar fyrir árið 1937 sést að hún hefur fengið skrár um vinnukjör 1547 karla. Af þeim hópi voru 775 bæjarmenn og 772 utanbæjarmenn. Þá voru skráðar 1148 konur, 618 úr bænum og 530 aðkomnar. Af heimamönnum höfðu 295 innan við 1000 króna árstekjur en 480 meira. Hæstu tekjur daglaunamanns voru um 4400 kr., hæstu tekjur skipstjóra og vélstjóra um 6500, hæstu tekjur verkstjóra 6000 kr. og hæstu tekjur verslunarmanns 3000 kr. Meðaltekjur heimakarla voru 1684 kr. en aðkomukarla 874 kr.

Skýrslur bárust um 1148 konur, 618 úr bænum og 530 aðkomnar. Af bæjarkonunum höfðu aðeins 35 meira en 500 króna tekjur. Rúmlega helmingur, 323, höfðu 200–400 kr. hver. Meðaltekjur heimakvennanna voru 283 kr. en aðkomnu kvennanna rúmar 260 kr.

Aðkomufólkið skiptist þannig eftir byggðarlögum: Frá Akureyri 70 karlar og 108 konur; frá Hafnarfirði 28 karlar og 29 konur; frá Ísafirði 43 karlar og 63 konur; frá Reykjavík 134 karlar og 127 konur; frá Vestmanneyjum 41 karl og 10 konur; frá ýmsum stöðum eða með óþekkt heimilisfang 356 karlar og 193 konur. Forstjórar, verslunar- og skrifstofufólk er talið með í þessum skrám.

Tekjur verkafólks á Siglufirði 1938

Samkvæmt vinnumiðlunarskýrslu um árið 1938 fengu 609 aðkomnir karlar og 651 kona laun á Siglufirði það ár. Þetta fólk skiptist þannig eftir byggðarlögum:

  Karlar  Konur 
 Eyjafjarðarsýsla 36 28
 Þingeyjarsýslur 12
 Múlasýslur 16
 Skaftaf., Rangárv. og Árness. 25
 Gullbringu- og Kjósarsýsla 53 39 
 Borgarfjörður og Mýras. 1 39 
 Snæf. og Dalasýsla 29 
 Vestfirðir utan Ísafjarðar 38  26 
 Húnavatnssýslur 5 9
 Skagafjarðarsýsla  32 62 
 Akureyri  88 155 
 Hafnarfjörður 11 27 
 Reykjavík 152 164
 Vestmannaeyjar 46 14
 Ísafjörður 41 89 
 Samtals: 609   651

Skráð heimafólk þetta ár var rúmlega 80 fleira og fékk 62,8% greiddra vinnulauna en aðkomufólkið 37,2 %. Meðaltekjur heimakarla voru 1492 kr. en aðkomukarla 936 kr. Meðaltekjur heimakvenna voru 460 kr. en aðkomukvenna 376 kr. Aðeins verkafólk, sjómenn og bílstjórar eru inni í þessari talningu.


Flutt heim á kostnað ríkisins

Sumarið 1935 var mesta hallærissumar síldarsögunnar á árunum milli heimsstyrjaldanna. Að vertíð lokinni átti síldarfólk í verstöðvunum norðanlands ekki fyrir farinu heim til sín og var flutt heim á kostnað ríkisins. Á Siglufirði fengu 1082 ókeypis farseðla með skipum til eftirrtalinna landshluta:

  • Vestfjarðahafna 198
  • Reykjavíkur 583
  • Akureyrar 132
  • Skagafjarðarhafna 68
  • Húnaflóahafna 35
  • Austfjarðahafna 66

 

Punktar

  • Fundur niðurjöfnunarnefndar 17. 9. 1925: „Talið að Godtfredsen hafi saltað um 18 þúsund tunnur 1924 og grætt um 50 þúsund á 5000 kryddsíldartunnum.”
  • Fundur niðurjöfnunarnefndar 11. jan. 1926: „Grána tapaði um 64 þús. kr. á rekstrinum sl. sumar.” Á sama fundi kemur fram í bókun að Hofman Olsen sé með mikinn rekstur á Hesteyri.
  • Júní 1931: Niðurjöfnunarnefnd segir að Ingvar Guðjónsson hafi hér stóra stöð til fimm ára og hafi saltað þar og kryddað 15–20 þús. tunnur undanfarin sumur.
  • Þormóður Eyjólfsson saltaði um 6000 tunnur sumarið 1923.
  • Evanger-bræður söltuðu 8–9 þús. tunnur 1923.
  • Jakobsen saltaði um 7000 tunnur 1923.
  • Tynes saltaði 4673 tunnur 1924.
  • Afli Brödrene 1923 var um 8000 tunnur.
  • Hrogn og lýsi h/f saltaði og kryddaði allt að 20 þúsund tunnur 1923.
  • Ingvar Guðjónsson rak mikla útgerð frá Siglufirði og saltaði þar 600–700 tunnur af síld sumarið 1923.
  • Siglfirðingur 23. maí 1924: „Tunnuverksmiðja Neumanns Frey er nú tekin til starfa.”
  • Siglfirðingur 13. des. 1928: „Brimið 10. nóv. sl. braut alveg niður bryggju Bakka h/f og talsvert af bryggju Lúðvíks Sigurjónssonar.”
  • Síldarhreistur. Ole Tynes safnaði síldarhreistri á þriðja áratugnum og sendi Regensburger & Co, am Karlsbad 16, Berlin.

 

Kunningjar komnir í bæinn

Siglufjarðarblaðið Fram segir frá því 23. júlí 1921 að komnir séu í bæinn gamlir kunningjar, til dæmis Ingeniör Vestesen, Th. Björnsson, H. Söbstad, H. Henriksen, Severin Roald, O Bjerkevik, Corneliusson, A. Godtfredsen, Petterson og Salomonsson.