Blaðamaður í síldarbransa

Margrét Indriðadóttir lýsir síldarlausum Siglufirði.

Útvarpstíðindi, ágúst 1948.

Nú í sumar hefur í fyrsta sinn verið greiðfarið á milli Akureyrar og Siglufjarðar. Flugfélag Íslands hefur haldið uppi daglegum áætlunarferðum á milli þessara norðlensku kaupstaða – og iðulega hafa verið farnar fimm ferðir á dag og stundum fleiri. Ferðin á milli tekur álíka langan tíma og maður er að labba í rólegheitum neðan af Oddeyrinni á Akureyri og upp í Listigarð – eða neðan úr miðbæ í Reykjavík og upp í Austurbæjarbíó. Það er einhver munur en þegar menn voru að veltast með mjólkurbátnum hálfu og heilu dagana, þessa stuttu leið, hrjáðir og hrelldir á sál og líkama.

Það segir sig eiginlega sjálft, að í júlímánuði á Siglufirði er ekki um annað meira talað og hugsað en síld, síld og aftur síld. Það er sama, hvert farið er í þessum vinalega og óhreina bæ, sem er friðsæll kaupstaður með um 3000 íbúa á vetrum en þenst út á sumri hverju, óeðlilega ört og fær á sig örlítinn blæ heimsborgarinnar, með fjölskrúðugu lífi, ys og þys og miklum hraða á öllum sviðum. Í kaffihúsum og kaffiboðum, á bryggjunum og í bröggunum, tala allir um síld, ungir, gamlir, konur og karlar, eða nánar tiltekið þá talar fólkið um síldarleysi, á því herrans ári 1948.

Hvar sem maður hittir mann beinist talið fyrr en seinna að síldarleysinu og mörgum hefur orðið á að spyrja, hvernig þetta endi allt saman, hvað verði eiginlega um Ísland, ef engin síld veiðist. Og flestir svara sér sjálfir og segja: Landið fer á hausinn. Annars tala menn misjafnlega um síldarleysið. Sumir eru ákaflega daprir í bragði og svartsýnir og hafa glatað allri von – aðrir eru reiðir, berja saman hnefunum og bölva fiskinum litfagra í sand og ösku yfir þeim grikk, sem hann virðist ætla að gera þeim, og enn aðrir eru vongóðir um að þetta kunni allt að lagast, segja að síldin hljóti að koma þótt seint verði.

En óneitanlega er það ömurlegt að koma til Siglufjarðar seint í júlí, um hásíldveiðitímann, og sjá að ekki rýkur úr einni einustu verksmiðju, fá skip eru inni, deyfðar- og drungablær yfir öllu. Jafnvel hin fræga lykt, peningalyktin sem Reykvíkingar rífast um, en Siglfirðingum þykir góð, hún finst varla að heitið geti – enda þótt maður komist að raun um það síðar, þegar maður fer að rölta um bæinn, að þar er að finna ótrúlega margar tegundir af ýldulykt – og er það ekki allt peningalykt.

Þegar ég fór að kvarta yfir því við hina innfæddu, að bærinn þeirra væri dauflegri en ég hefði gert mér í hugarlund, þá svöruðu þeir: Bíddu bara – það lagast um helgina. Og meðan ég beið eftir því, að fjör færðist í bæinn yfir helgina, fór ég að dæmi annarra forvitinna ferðamanna, sem til Siglufjarðar koma yfir sumarið og heimsótti síldarbragga, síldarverksmiðju, sjómannaheimilið og labbaði um síldarplönin.

Síldarbraggarnir misjafnir

Síldarbraggarnir – en svo nefnast vistarverur síldarstúlknanna yfir sumarið – virðast all mismunandi að gæðum. Sumir eru hinir myndarlegustu með snyrtilegum tveggja manna herbergjum og öllum þægindum – aðrir geta tæpast kallast mannabústaðir á nútímavísu. Það eru eldgamlir, fúnir timburhjallar, kaldir, lekir, sóðalegir – sem bera það með sér, að þar hefur allt verið látið dankast árum saman.

Þegar maður virðir fyrir sér húsin á Siglufirði – ekki fremur braggana en önnur hús – þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort Siglfirðingar séu manna hræddastir við málningu á húsum sínum, en hafi aftur á móti mesta dálæti á hvers konar rusli í kringum þau. Ég sá, að eitt bæjarblaðanna var að velta því fyrir sér hvort Siglufjörður myndi óþrifalegasti bær á Íslandi – en ekki komst blaðið að neinni varanlegri niðurstöðu í því máli.

Rétt fyrir framan dyrnar á einum bragganum, sem ég heimsótti, labbaði stór og pattaraleg rotta yfir tærnar á mér, hægt og virðulega og tók lífinu með stóiskri ró. Og þegar ég rak upp skaðræðisóp, hlógu stelpurnar í braggaglugganum dátt og sögðu: Blessuð, þú þarft ekki að vera hrædd við greyið – hún gerir þér ekkert. En það vita nú allir, sem eru hræddir við rottur – og eru hræddir við þær samt.

Eftir að hafa klifrað upp snarbrattar, þröngar tröppur, komst ég upp á loft til stúlknanna. Þær bjuggu sex í einu herbergi, meðalstóru, og sváfu allar í kojum. Finnst ykkur ekki þröngt hérna? spurði ég. – Okkur kemur svo vel saman að það kemur ekki að sök, sögðu þær og hlógu. Er ekki kalt hér? spurði ég. O, ekki kvartar maður – alltaf eitthvað til að ylja sér við, sögðu þær og hlógu enn. Þetta voru svo glaðlyndar stúlkur, að ég nennti ekki að spyrja þær, hvort þakið læki ekki og hvort ofninn reykti ekki.

Eldhúsið, sem þær höfðu til afnota, var nokkuð stórt, en þar voru engir bekkir, engir skápar, veggfóðrið gömul Þjóðviljablöð, eldavélin ónýt. Hafið þið aldrei boðið útgerðarmanninum ykkar hingað upp? spurði ég. Iss, það myndi ekkert þýða – hann kæmist ekki gegnum stigaopið – hann myndi sitja fastur þar, sögðu þær og skellihlógu.

Svo var boðið upp á kaffi, sem hitað var á rafmagnsplötu og yfir kaffibollunum spjölluðu stúlkurnar margt. Um ballið í íshússloftinu um daginn, þegar frostinu var hleypt á mannskapinn af því að öllum var orðið svo heitt, um Siggu og Gunnu sem nú voru heldur betur komnar á sjans með Færeyingum, um stelpur, sem bjuggu í bragga rétt hjá, voru ógurlega kaldar, drukku sig fullar, slógust, fleygðu kolamolum í lögregluna og brutu lögin á annan hátt, svo að nauðsynlegt reyndist að flytja þær aftur suður.

Og auðvitað var minnst á síldarleysið og brá þá fyrir vonleysissvip á sumum andlitunum. En það var aðeins andartak — brátt voru þær farnar að hlægja aftur, í þetta sinn að gömlum kalli sem hrópaði upp í gluggann til einnar: Manstu ekki eftir mér, elskan? Ég, sem er fermingarbróðir þinn. Á yfirborðinu var ekki annað að sjá, en þessar ungu síldarstúlkur héldu óskertri lífsgleði sinni, þrátt fyrir það að allar vonir um álitlega sumarhýru væru að bregðast, en það gat líka aðeins verið á yfirborðinu.

Fjölskrúðugt líf á síldarplönunum

Ekki veit ég hve mörg síldarplönin á Siglufirði eru að tölu, en það er drjúgur spölur að ganga á milli þeirra allra. Mér var sagt, að það væri einn aðalrúnturinn á Siglufirði að spássera um plönin, og víst er um það, að þar sér maður alls konar fólk – síldarstúlkur í fullum galla, skrautbúnar hispursmeyjar í 65 krónu nælonsokkum og háhæluðum skóm, þrifalega síldarspekúlanta í djúpum og alvarlegum samræðum, sjómenn, sem flauta og kalla eitthvað fallegt á eftir ungu stúlkunum og jafnvel þeim eldri líka, og verða steinhissa ef þeim er svarað – þeir ætlast ekki til þess – þetta er bara vani hjá þeim.

En mest er fjörið á plönunum, þar sem verið er að salta og ber þar margt nýstárlegt fyrir augu þess, sem ókunnugur er. Í sumar hafa stúlkurnar eytt megninu af tíma sínum í að bíða eftir því að vera ræstar með hrópi um síld – og þegar svo loks að kallið kemur, láta þær heldur betur hendur standa fram úr ermum. Það er gaman að horfa á þær vinna.

Margar þeirra eru svo eldfljótar að maður eygir varla hendur þeirra – en mér var sagt, að þær vönustu væru ekki nema hálftíma til þrjú kortér með tunnuna, en fyrir að hausskera og slógdraga fá þær kr. 11,22 á hverja tunnu. Innanum eru svo einstaka viðvaningar, hálffeimnir við að handleika hnífinn og dálítið taugaóstyrkir í öllum þessum látum.

    Sjómennirnir gefa stúlkunum hýrt auga og glettast til við þær, sér í lagi þær sem yngri eru, og sumir hjálpa þeim til með því að salta í tunnurnar fyrir þær. Hinar, sem eldri eru og fara á mis við slíka umhyggju, eru dálítið súrar á svipinn sem vonlegt er og senda ungu stúlkunum óspart tóninn.

Á mörgum stúlknanna gengur munnurinn jafn hratt og hendurnar – sífellt heyrist hrópað: Vantar síld hér – nei, strákar, komið með hana hingað, vantar salt – vantar tóma tunnu – sækið fulla tunnu hingað. Og ef ekki er komið strax með það, sem beðið er um, verða stúlkurnar óþolinmóðar yfir töfinni, því að samkeppnin er hörð og hver mínúta dýrmæt – og eru þá látin fjúka ýms ljót orð kinnroðalaust. Fyrir hverja fulla tunnu fá stúlkurnar lítið merki sem verkstjórinn stingur í vasa þeirra eða stígvél.

Mér var tjáð, að þegar mikil síld væri, kæmi það oft fyrir að stúlkurnar yltu útaf steinsofandi og úrvinda af þreytu við tunnurnar, en slíkt mun ekki hafa komið fyrir á þessu sumri. Einnig sagði einhver mér, að stundum kæmi til handalögmáls og smáóeirða í milli þeirra út af síðustu síldunum – sér í lagi ef hart væri í ári, en ekki varð ég sjónarvottur að neinu þess háttar. Oft eru margir að horfa á, þegar verið er að salta, og ein af síldarstúlkunum trúði mér fyrir því að það færi í taugarnar á sér, þetta forvitnisgláp í prúðbúnu fólki, þegar hún væri að vinna.

Sumar af konunum verða að hafa börnin sín með sér í síldina, enda þótt nú starfi á Siglufirði myndarlegur barnagarður. Strax og krakkarnir fara að stálpast fá þau að hjálpa mæðrum sínum til við að salta í tunnurnar. Ég er viss um að smáhnokki einn sem ég sá með móðir sinni hefur ekki verið meira en 6-7 ára, og hann hamaðist við að salta og var hinn kotrosknasti og virtist vera vel þjálfaður í því að brúka bæði munn og hendur.

Sjómanna- og gestaheimili Siglufjarðar

Ég geri ráð fyrir, að mikill meirihluti þeirra gesta, er til Siglufjarðar koma yfir sumarið, heimsæki Sjómanna- og gestaheimili Siglufjarðar, hvort sem um sjómenn eða venjulega ferðamenn er að ræða því að það er einn besti veitingastaðurinn í bænum. Það er stúkan Framsókn sem starfrækir heimilið og er þetta níunda árið, sem það starfar og lætur nærri að 90-100 þúsund manns hafi heimsótt það, síðan það tók fyrst til starfa. Í fyrra heimsóttu það 26.500 gestir yfir sumarið, en það er venjulega opnað í júní eða snemma í júlí ár hvert og opið til septemberloka. Í ár var heimilið opnað 4. júní, og hefur aldrei verið opnað eins snemma.

Sjómannaheimilið á allgott bókasafn, um 1700 bindi. Í fyrra voru 850 bindi lánuð í skipin og ráðsmaðurinn, Páll Jónsson, tjáði mér, að sjómennirnir vildu helst fá reyfara og léttan litteratúr með sér á sjóinn. Heimilið á bæði orgel og píanó, sem sjómenn geta notað eftir vild. Þeir geta hlustað þar á útvarp, teflt, spilað og lesið í blöðum og tímaritum, sem útgefendur senda heimilinu ókeypis.

Mikill fjöldi bréfa er skrifaður þar, í júlí voru t. d. send þaðan yfir 600 bréf, en sjómenn fá allt ókeypis, sem til bréfaskriftanna þarf. Þá geta þeir komið þangað til geymslu peningum, fatnaði og öðru verðmæti, ef þeir æskja þess. Fjórir baðklefar eru í heimilinu og í júlí sóttu þá um 2000 baðgestir.

Sjómannaheimilið er styrkt af ríki og bæ – einnig gefa sjómenn og útgerðarmenn mikið til þess á haustin, en stúkan Framsókn annast rekstur þess að öllu leyti, sem fyrr segir. Við reynum að hlúa að sjómönnunum okkar eins vel og við getum, sagði ráðskonan Lára Jóhannsdóttir – og þeir launa fyrir með því að ganga eins kurteislega og prúðmannlega um heimilið og frekast verður á kosið. Heimilið er bara orðið of lítið, bætti hún við – en við gerum okkur vonir um að innan skamms verði hægt að hefjast handa um byggingu á veglegu sjómannaheimili á Siglufirði.

Í síldarverksmiðju

Það yrði of langt mál að skýra nákvæmlega frá öllu því, er fyrir augu og eyru bar, þegar Guðjón Jónsson verkstjóri sýndi mér dr. Paul verksmiðjuna hátt og lágt, en það er ein af síldarverksmiðjum ríkisins og heitir hún í höfuðið á þýskum manni er byggði hana árið 1926. Öll vinnsla síldarinnar fer fram með stórum og merkilegum vélum og ég held að það þurfi að heimsækja verksmiðjurnar oftar en einu sinni til þess að geta nefnt þær allar rétt.

Við horfðum á hvernig farið var að því að landa síldinni með geysistórri vélskóflu, sem getur landað 600 málum á klukkustund, en hvert mál er 135 kílógrömm, og hvernig síldin var síðan flutt með vélaafli alla leið upp í verksmiðjuþróna. Allt fram til ársins 1942 var síldin flutt í vögnum frá skipshlið og upp í verksmiðjurnar. Þá tók um 20 tíma að landa úr einu skipi, og eftir daginn höfðu mennirnir, er við löndunina unnu, gengið með vagnana svipaða vegalengd og frá Reykjavík til Þingvalla.

Þann tíma, sem ég dvaldi á Siglufirði, var engin af verksmiðjunum í gangi, en verkstjórinn sýndi mér suðukerin, þar sem síldin er mauksoðin áður en hún fer í pressuna, en þar er fasta efnið aðskilið frá hinu fljótandi, þ.e.a.s. í mjöl annars vegar og lýsi og vatn hins vegar. Svo er vatnið skilið frá lýsinu áður en því er dælt yfir í hina geysistóru lýsisgeyma.

Mjölið er pressað, þurrkað og malað og síðan tekur mjölblásarínn við því, og blæs því eftir ca. 50 metra löngu röri, yfir í mjölhúsið. Þar er mjölið vigtað í 100 kílógramma poka – og getur vélin vigtað 45 poka á klukkustund. Mjölhúsið er gímald eitt mikið og er hægt að geyma þar 20 þúsund poka.

Guðjón Jónsson sagði, að í dr. Paul verksmiðjunni einni ynnu 74 menn, en alls vinna hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði 450 manns, svo að síldarleysið er orðið alldýrt spaug fyrir ríkið. Guðjón kvaðst aldrei muna eftir eins miklu síldarleysi um þetta leyti árs og í sumar. Aðgerðarleysið er að drepa okkur, sagði hann.

Oft er erfitt að finna eitthvað handa mönnunum að gera – þeir verða áhyggjufullir og eirðarlausir á því að bíða eftir síld, sem aldrei kemur. Margt af þessu eru skólapiltar og þó að þeir fái tveggja mánaða tryggingu segir það ekki mikið í námskostnað allan veturinn. En árið 1944 kom síldin ekki fyrr en um miðjan ágúst, bætti Guðjón við – og við erum nú alltaf að vona að hún hagi sér eins í ár.

Og svo kom laugardagurinn með fjör í bæinn

Loks rann svo upp hinn langþráði laugardagur, bjartur og fagur, og eins og mér hafði verið sagt, tók þegar að færast líf í bæinn þótt engin kæmi síldin. Erlendu skipin, sem hér stunda síldveiðar, hafa það fyrir sið að koma inn á laugardögum og liggja í höfn fram yfir sunnudaginn. Laust eftir hádegið á laugardaginn tóku þau að streyma inn og hélst sá straumur nær óslitið langt fram á kvöld. Voru þá skipin orðin milli 300 og 400 – fjörðurinn var kvikur af skipum – skógur af siglutrjám hvort sem litið var inn eða út með firðinum.

Útlendu skipin má m. t. þekkja á því, að þau hafa öll tunnustafla aftaná og á tunnustaflanum má sjá, hvernig skipin hafa veitt – eftir því, sem staflinn minnkar, þess betri hefur veiðin verið. Flest þeirra virtust hafa veitt fremur treglega, því að enn var tunnustaflinn aftaná stór. Meðan skipin voru að koma inn, heyrðust í sífellu flaut – eitt, tvö, þrjú – löng og stutt, eftir því hvort skipin vildu gefa til kynna að þau beygðu til hægri eða vinstri ellegar ætluðu beint afturábak eða beint áfram.

Þetta voru norsk, dönsk, sænsk, færeysk og þýsk skip – skip af öllum gerðum. Sænsku of norsku skipin voru áberandi falleg en færeysku skipin virtust flest komin vel til ára sinna, enda munu sum þeirra vera frá skútuöldinni, keypt af Íslendingum, og bera mörg þeirra íslensk nöfn – lengi vel var t. d. eitt þeirra sem hét Guðrún Zoega.

Á Siglufirði verður vart við talsverða gremju vegna þessarar ágengni útlendinganna, þar eð mikið af skipunum leggst upp við bryggjur, svo að nær ógjörningur er fyrir íslensk skip að komast þar að og það mun hafa komið fyrir að íslensk skip hafa orðið frá að hverfa vegna þess að hin útlendu neituðu að víkja.

Megnið af skipunum liggur inn á móts við bæinn og það hefur aftur í för með sér að mjög erfitt er fyrir flugvélar að lenda örugglega nema þá einhvers staðar lengst úti á firði. Þetta segja Siglfirðingar, og þykir súrt í brotið, sem von er.

Eins og gefur að skilja verða göturnar senn svartar af erlendum sjómönnum – og þetta er um helgi og þeir eiga frí og vilja því skemmta sér. Mikil þröng verða fyrir framan kvikmyndahúsin og veitingahúsið, þar sem dansað er, og það heyrist bollalagt um það á öllum Norðurlandamálunum í einu, hvernig eigi að skemmta sér – með hverju eigi að drepa tímann.

Og þarna sést, að Norðmennirnir, Svíarnir og Færeyingarnir fara ekkert öðruvísi að því að vera drukknir, en Islendingar. Því að enda þótt þeir á lögreglustöðinni segðu, að þetta væri eitt allra rólegasta sumarið, sem þeir myndu eftir, þá var mikil háreysti í miðbænum þetta laugardagskvöld.

Sumir voru barmafullir af ást á mönnunum og tilverunni yfirleitt – og þeirra miklu ást mátti m. a. marka af því, að þeir vildu sífellt vera að taka í hendina á félögum sínum – faðma þá og kyssa. Aðrir voru ógurlega reiðir – vildu brjóta allt – berja alla.

Niðri við höfnina heyrðist dynjandi grammófónsmúsik úr mörgum skipanna og á víð og dreif um plönin sátu ung pör á tunnum, héldust í hendur og pískruðu saman – og eflaust hefur verið pískrað þar um síld, eða öllu heldur síldarleysi.

Útdráttur:

Mörgum hefur orðið á að spyrja hvernig þetta endi allt saman, hvað verði eiginlega um Ísland ef engin síld veiðist. Og flestir svara sér sjálfir og segja: Landið fer á hausinn.

Þegar maður virðir fyrir sér húsin á Siglufirði – ekki fremur braggana en önnur hús – þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort Siglfirðingar séu manna hræddastir við málningu á húsum sínum, en hafi aftur á móti mesta dálæti á hvers konar rusli í kringum þau.

Hafið þið aldrei boðið útgerðarmanninum ykkar hingað upp? spurði ég. Iss, það myndi ekkert þýða – hann kæmist ekki gegnum stigaopið – hann myndi sitja fastur þar, sögðu þær og skellihlógu.

Sjómanna- og gestaheimili Siglufjarðar ... er einn besti veitingastaðurinn í bænum ... Lætur nærri að 90-100 þúsund manns hafi heimsótt það, síðan það tók fyrst til starfa.

Sumir voru barmafullir af ást á mönnunum og tilverunni yfirleitt – og þeirra miklu ást mátti m. a. marka af því að þeir vildu sífellt vera að taka í hendina á félögum sínum – faðma þá og kyssa.