Þegar Síldarminjasafnið var valið besta nýja iðnaðarsafn Evrópu!

22. janúar 2004 - Síldarminjasafnið "keppir til úrslita á Ólympíuleikvanginum"

Tilkynning hefur borist frá Safnaráði Evrópu (Europian Museum Forum) um að Síldarminjasafnið á Siglufirði hafi verið valið til áframhaldandi keppni til Evrópsku safnverðlaunanna 2004.

Hefðin er sú að dómnefnd skoðar öll þau söfn sem tilnefningu hljóta og velur um 60% þeirra til aðalkeppninnar. Á árlegum fundi ráðsins, sem að þessu sinni verður haldinn í Aþenu 5.-8. maí í vor, verða úrslit kunngerð og verðlaun veitt. Til þessa fundar er boðið fulltrúum þeirra 40 safna sem standa eftir í keppninni.

Þessi tíðindi eru mjög ánægjuleg og mikils virði fyrir Síldarminjasafnið. Einnig ætti þetta að vera fagnaðarefni fyrir Safnaráð sem tilnefndi Síldarminjasafnið og ákvað þar með fyrstu þátttöku Íslands í þessari virtu keppni. (ÖK)

Örlygur við hof sjávarguðsins og heitir á Póseidon
– ljósm. Guðný R.

8. maí 2004 - Fréttaskeyti frá Grikklandi.

Síldarminjasafnið tekur þátt í Ólympíuleikum safna sem fram fer í Aþenu þessa dagana. Eins og hæfir tilefninu var hinn forni leikvangur Grikkja opnaður fyrir keppnina. Fulltrúi safnsins, Örlygur Kristfinnsson, hefur lokið keppni en þar var aðalkeppnisgreinin "alhliða þrek- og fegurðarsýning með hjálpargagni" sem 45 söfn kepptu. Siglfirðingurinn sveiflaði díxli sínum ákaft og var talinn hafa staðið sig þokkalega. Í gær var farið í hof Poseidons, þar sem heitið var á sjávarguðinn að senda okkur aftur síldina á Norðurlandsmið. (GR&ÖK - skrifað í gamansömum tón frá Aþenu)

9. maí 2004 - Nýtt fréttaskeyti frá Evrópu - Safnið okkar hlýtur verðlaun! 

Síldarminjasafnið hlaut önnur aðalverðlaun Safnaráðs Evrópu (European Museum Forum) sem eru Micheletti verðlaunin sem veitt eru fyrir framúrskarandi safnstarf á sviði vísinda, iðnaðar eða tækni. Aðalverðlaunin, "Safn Evrópu ársins 2004" hlaut hið mikla og glæsilega fornminjasafn í Alicante a Spáni. Þriðju verðlaunin voru á vegum Evrópuráðsins komu í hlut Heilsugæslusafnsins i Edirne i Tyrklandi. Þess má geta að allt að 40 Þúsund söfnum víðsvegar i Evrópu stendur til boða þátttaka i þessari virtu keppni. 45 söfn, sum afar stór og öll mjög glæsileg voru í þessari úrslitakeppni í Aþenu.  (ÖK - skrifað frá Aþenu)

Ljósm. Steingrímur

11. maí 2004 - Örlygur er kominn heim

Örlygur er kominn heim með hin eftirsóknalegu verðlaun frá Aþenu, sem Síldarminjasafnið fékk frá Safnaráði Evrópu (European Museum Forum). Á gripnum stendur: EUROPIAN MUSEUM OF THE YEAR AWARD  og  LUGI MICHETTI AWARD 2004. Þetta eru önnur aðalverðlaunin, sem veitt eru í þeim tilgangi að veita bestu söfnunum í Evrópu viðurkenningu. Við Siglfirðingar getum verið stoltir af þeim mönnum sem barist hafa  fyrir þeim árangri sem nú þegar hefur áunnist, en mikið verk er þó framundan. Myndin er tekin í Síldarminjasafninu, Gránu í morgun. (SK)

Vaðandi síld fyrir framan Síldarminjasafnið morguninn 11. ágúst 2004
– ljósm. Steingrímur.

Miðvikudagur 11. ágúst 2004 - Vaðandi síld

Vaðandi síld var  rétt framan við Síldarminjasafnið fyrir hádegið í dag, - svona til að kalla á Örlyg: "Halló Örlygur við erum komin aftur" Þarna virtist mikið magn á ferðinni er ég kom á vettvang, en síldin hafði aðeins fjarlægst fjöruna framan við Síldarminjasafnið og komið utar í innri höfninni. Þetta voru tveir flekkir, annar nokkru minni og fuglinn syndandi í kringum torfurnar. Trillukarl sagði mér að hann hefði fylgst þó nokkurn tíma með torfunum heiman úr glugga sínum. (SK)