Listrænn innblástur - tengsl Gunnlaugs Blöndal við Siglufjörð

Gunnlaugur Blöndal listmálari (f. 1893, d. 1962, 68 ára) átti tvo bræður sem komu við sögu á Siglufirði, foreldrar hans dvöldu þar í nokkur ár og hann sjálfur tengdist bænum sterkum böndum.

Í húsi Hafliða hreppstjóra

Foreldrar Gunnlaugs voru Björn G. Blöndal læknir (f. 1865, d. 1927, 62 ára), héraðslæknir á Langanesi og síðan á Hvammstanga, og Sigríður Möller (f. 1865, d. 1945, 79 ára). Þau komu til Siglufjarðar árið 1919 og bjuggu fyrst að Eyrargötu 4 en dvöldu síðan á heimili Sophusar sonar síns og Ólafar tengdadóttur sinnar að Norðurgötu 3. Á þessum árum fékkst Björn við ritstörf.  Siglufjarðarprentsmiðja gaf út nokkrar bækur sem hann þýddi, meðal annars Skytturnar eftir Alexander Dumas. Að Birni látnum mun Sigríður hafa flutt til Reykjavíkur. Í minningargrein um hana kom fram að Gunnlaugur dvaldi langdvölum á Siglufirði og átti þá sitt annað heimili hjá Sophusi og Ólöfu.

Sophus Blöndal (f. 1888, d. 1936, 47 ára), eldri bróðir Gunnlaugs, giftist árið 1916 Ólöfu (f. 1894, d. 1976, 81 árs) dóttur Hafliða Guðmundssonar hreppstjóra og bjuggu þau í húsi hans, þar sem Þjóðlagasetrið er nú. Sophus rak verslun um skeið en gerðist síðan skrifstofustjóri Síldarútvegsnefndar og jafnframt var hann þýskur ræðismaður. Dætur þeirra voru Sigríður (f. 1917, d. 1998, 80 ára) og Sveinbjörg (f. 1919, d. 2004, 84 ára). Dæturnar sátu oft fyrir hjá Gunnlaugi sem börn. Ólöf flutti til Reykjavíkur árið 1941, fimm árum eftir að Sophus lést.

Magnús Blöndal (f. 1897, d. 1945, 47 ára), yngri bróðir Gunnlaugs, var skrifstofustjóri Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði frá 1930 til 1944 og síðan framkvæmdastjóri. Hann lést af slysförum sumarið 1945. Kona hans var Elsa Schiöth (f. 1906, d. 1966, 59 ára). Börn þeirra eru Margrét Sigríður (f. 1930, d. 2002, 72 ára) og Sveinbjörn Helgi (f. 1932).

Heim til Siglufjarðar

Siglfirðingar fylgdust vel með ferli Gunnlaugs. Í blaðinu Fram var sagt frá því vorið 1918 að hann væri við nám í listamannaskóla ríkisins í Kristjaníu (Osló) og haft var eftir norsku blaði að hann væri „mikið listamannsefni“.

Til er teikning af móður listamannsins, merkt „Siglo 1920,“ sem bendir til þess að hann hafi komið norður það ár, en foreldrar hans voru þá á Siglufirði.

Fyrsta einkasýning Gunnlaugs Blöndal var opnuð í KFUM-húsinu í Reykjavík haustið 1922. Blaðið Fram birti umsögn um sýninguna: „Hann er talinn vera efnilegastur andlitsmálari af hinum yngri mönnum hér,“ sagði í Morgunblaðinu. „Hjá honum fer saman þroskuð listmennt og næmt auga.“

Ísafold sagði frá því haustið 1927 að Gunnlaugur væri kominn „heim til Siglufjarðar“ eftir rúmlega fjögurra ára dvöl í útlöndum, einkum París. Síðan ætlaði hann að halda til Reykjavíkur. Í nóvember hélt Gunnlaugur málverkasýningu í höfuðborginni og fékk lofsamlega dóma.

Líklega er málverkið „Við spilaborðið“ frá þessu ári, enda þótt það sé í listaverkabókum sagt vera málað um 1925. Sveinbjörg dóttir Sophusar og Ólafar er á myndinni, átta ára að aldri. Eldri Siglfirðingar þekkja einnig Steingrím Eyfjörð Einarsson lækni, Torfa Tímóteusson sjómann og Jósep Blöndal símstöðvarstjóra.

Gunnlaugur dvaldi hér á landi sumarið 1932, mest á Siglufirði. Frá því ári eru „Bátar á Siglufirði.“

Þá er vitað að hann dvaldi á Siglufirði um tíma sumarið 1934. Það ár málaði hann málverk af „Siglufjarðarhöfn,“ sem var á sýningu 1963, „Bátur í Siglufjarðarhöfn,“ merkt 1934, og hugsanlega einnig „Frá Siglufirði,“ sem merkt er 1930-1935, 85x100 sentimetrar, og sýnir meðal annars Hólshyrnuna.

Gunnlaugur kom til landsins í byrjun maí 1939 og fór norður mánuði síðar. Hann málaði einkum á Siglufirði áður en hann hélt aftur út um haustið. Þekkt eru málverkin „Bátur á Siglufirði,“ merkt 1939, 80x115 sentimetrar og „Frá Siglufirði,“ merkt 1939, ein af nokkrum Hólshyrnumyndum.

Málverk af Bjarna og Einari

Málverk Gunnlaugs Blöndal af séra Bjarna Þorsteinssyni var málað árið 1932, sennilega á Siglufirði. Eggert Stefánsson óperusöngvari, vinur málarans, taldi þetta eitt besta „portrett“ hans, „djúphugsað og göfugmannlegt. Er það virðulegur minnisvarði um þennan merka fræðimann og prest.“

Í sýningarskrá frá yfirlitssýningu í febrúar 1961 var verkið sagt eign listamannsins. Í apríl sama ár keypti Listasafn Íslands verkið á 45.000 krónur, sem var um tíundi hluti allra fjárveitinga til listaverkakaupa. Málverkið er 75x65 sentimetrar.

Gunnlaugur Blöndal listmálari gaf Gagnfræðaskóla Siglufjarðar „stórt og fagurt málverk af skáldinu Einari Benediktssyni,“ sagði í Einherja í júní 1937. „Er það ómetanlegur ávinningur að geta skreytt skólastofurnar með fögrum málverkum,“ sagði Jóhann Jóhannsson skólastjóri. Málverkið er 110x85 sentimetrar, málað 1927.

Á þessum tíma var skólinn á lofti Siglufjarðarkirkju og sagði Jóhann að Guðrún Björnsdóttir formaður skólanefndarinnar hefði tekið við gjöfinni frá listamanninum fyrir hönd skólans. Hún sagðist hafa gengið með Gunnlaugi um húsnæði skólans og hann hafi lýst sérstakri hrifningu af húsnæðinu og aðstöðunni.

Gunnlaugur málaði nokkrar myndir af Einari, meðal annars 1930 og þegar þeir voru samtíða í París 1932-1933. 

Altaristaflan í kirkjunni

Sophus bróðir Gunnlaugs var formaður sóknarnefndar þegar núverandi Siglufjarðarkirkja var byggð, en hún var tekin í notkun sumarið 1932. Þá var sett upp altaristafla sem hafði verið í gömlu kirkjunni á Eyrinni.

Fyrstu skráðu heimildirnar um að Gunnlaugur væri að vinna að nýrri altaristöflu í kirkjuna voru í Nýja dagblaðinu í júní 1935, tæpu ári áður en Sophus lést. Þá var birt viðtal við Gunnlaug, tekið í Kaupmannahöfn. Listamaðurinn sýndi blaðamanninum stórt málverk. „Aðeins höfuðdrættirnir höfðu verið málaðir. Þetta á að verða altaristafla í nýju kirkjuna á Siglufirði.“ Gunnlaugur sagði: „Það táknar þegar Kristur gengur á hafinu og mætir fiskimönnunum. Mér virðist að slík mynd eigi vel við í kirkjunni á Siglufirði því Siglufjörður er mikil verstöð. Mér finnst líka vel hæfa að fiskimennirnir á myndinni séu íslenskir sjómenn,“ sagði listamaðurinn og lagði áherslu á að verkið þyrfti að vera málað með sterkum litum því að birtan í kirkjunni væri dauf. „Ég fer til Íslands í júní í sumar til að ljúka við altaristöfluna. Fer ég til Norðurlandsins og vona að mér auðnist að finna þar fyrirmyndir að fiskimönnunum.“

Jónas Jónsson alþingismaður frá Hriflu skrifaði um Siglufjarðarkirkju og altaristöfluna í Nýja dagblaðið sumarið 1936. Þar kom fram að Ingvar Guðjónsson útgerðarmaður hefði átt frumkvæði að því að nokkrir menn stæðu saman að því að fá Gunnlaug til að gera altaristöflu. „Nú standa 12 Siglfirðingar að því að kaupa handa bæ sínum mestu og dýrustu altarismynd sem enn hefur verið unnið að fyrir nokkra íslenska kirkju,“ sagði Jónas.  „Það er sjávarmynd, hraustlegir sjómenn á úfnum sæ. En Kristur lægir ölduganginn. Efnið er fallegt og vel valið fyrir fólkið í þessum bæ, sem fram að þessu hefur aðeins haft útgöngudyr að hafinu og auði þess.“  

Haustið 1936 var sagt frá því að Gunnlaugur væri væntanlegur frá Kaupmannhöfn til Reykjavíkur í febrúar til að halda sýningu. „Hann ætlar að dvelja á Íslandi nokkra mánuði til þess að mála nýjar myndir og leggja síðustu hönd á altaristöfluna í Siglufjarðarkirkju,“ sagði Morgunblaðið.

Í apríl 1937 var staðfest að Gunnlaugur væri kominn til Reykjavíkur „til þess að ljúka við altaristöflu sem hann er að gera fyrir Siglufjarðarkirkju. Hefur hann að nokkru leyti íslenska sjómenn til fyrirmyndar við það verk,“ sagði í Alþýðublaðinu. Síðari hluta júlímánaðar var Gunnlaugur á Siglufirði. „Er hann að ljúka við stærsta verkið er hann hefur málað að þessu – altaristöflu í kirkjuna,“ að sögn Einherja.

Gunnlaugur fór til Kaupmannahafnar í byrjun ágúst. Hann var því ekki viðstaddur þegar altaristaflan var afhjúpuð við hátíðlega athöfn í Siglufjarðarkirkju sunnudaginn 5. september 1937. Hvert sæti var skipað. Nokkrum dögum áður skrifaði sóknarpresturinn, Óskar J. Þorláksson, stutta grein í Einherja þar sem hann sagði: „Málverkið er útfært þannig að það minni með sérstökum hætti á baráttu sjómannanna við bylgjur og storma hafsins og hjálp þeirra í þeirri baráttu.“ Óskar sagðist hafa spurt málarann, þegar hann var á Siglufirði þetta sumar að ljúka við verkið, hvað honum hefði verið efst í huga meðan hann var að mála og fengið þetta svar: „Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst.“ Ritningartextinn sem málarinn lagði til grundvallar er í Mattheusarguðspjalli, 14. kapítula, versum 22-33.

Þormóður Eyjólfsson konsúll afhenti altaristöfluna fyrir hönd gefendanna, sem voru fjórtán en vildu ekki láta nafns síns getið. „Það á vel við í þessum bæ, sem vaxinn er upp kringum sjávarútveg, að sjómannastéttin setji svip sinn á þessa fögru altaristöflu,“ sagði Þormóður. „Ósk gefendanna er sú að altaristaflan megi verða söfnuðinum til ánægju og vekja hjá honum traust á hjálpræði og mátt hins góða.“

„Sérstaka athygli vekur Kristsmyndin og andlit sjómanna í bátnum, en þau sýna andlit íslenskra sjómanna, enda eftir íslenskum fyrirmyndum,“ sagði Morgunblaðið þegar sagt var frá afhjúpun altaristöflunnar. „Yfir málverkinu öllu er táknrænn íslenskur svipur og er það talið eitt hið merkasta listaverk málarans.“

Altaristaflan er 3 metrar á hæð og 2,3 metrar á breidd. Á henni er Kristur og sjö sjómenn. „Telja sumir Siglfirðingar að þar megi þekkja gamlan, siglfirskan sjómann meðal postulanna," sagði í bókinni Siglufjarðarprestar.

Þegar Friðrik krónprins Danmerkur og Ingiríður kona hans komu í heimsókn til Siglufjarðar sumarið 1938 sagði Morgunblaðið að þau hefðu meðal annars skoðað kirkjuna „með hinni mikilfenglegu altaristöflu Gunnlaugs Blöndal“. Gunnlaugur hafði þá málað málverk af foreldrum Friðriks, Kristjáni konungi tíunda og Alexandrínu drottningu.

Þess má geta að í desember 2008 var selt á uppboði málverk eftir Gunnlaug Blöndal af sjómanni. Þetta virtist vera fyrirmynd mannsins sem stendur í stafni á altaristöflunni. Málverkið er 115x78 sentimetrar (sjöundi til áttundi hluti af stærð altaristöflunnar) og var selt á 1.380.000 krónur.

Konur í síldarvinnu

Hinn 1. júlí 1938 var opnað útibú Útvegsbanka Íslands í húsi Péturs Björnssonar kaupmanns á Siglufirði. Níu árum síðar, í júní 1947, var útibúið flutt í nýtt hús, Útvegsbankahúsið. „Er hús þetta glæsilegasta bygging bæjarins, stendur við Aðalgötu í miðbænum,“ sagði í Degi.

Málverkið „Konur í síldarvinnu“ eftir Gunnlaug Blöndal setti mikinn svip á afgreiðslusal bankans í marga áratugi. Það er 160x210 sentimetrar og talið málað 1935-1940. Síldarstúlkurnar eru fimm og töldu margir sig þekkja fyrirmyndirnar, en erfitt er að fullyrða nokkuð um það hverjar þær voru.

Hafliði Helgason starfaði við útibúið frá ársbyrjun 1939 til 1977, lengst af sem útibússtjóri. Í minningargrein um Hafliða kom fram að á fjórða áratugnum hafi hann verið daglegur gestur í húsi Ólafar frænku sinnar og Sophusar, bróður Gunnlaugs Blöndal. Hann hlýtur því að hafa hitt listmálarann oft.

Sigurður sonur Hafliða, sem síðar var útibússtjóri, telur að málverkið hafa verið keypt um það leyti sem flutt var í nýja húsið og hefur heyrt að þurft hafi sérstakt leyfi til kaupanna frá Ásgeiri Ásgeirssyni bankastjóra, sem síðar varð forseti Íslands.

Síldarstúlkur voru oftar viðfangsefni Gunnlaugs. Ein slík mynd er frá árinu 1934, stúlka með tvær síldar á diski, „Síldarstúlka,“ 85x75 sentimetrar. Þegar þessi mynd var á yfirlitssýningu nokkrum árum síðar var hún sögð hugþekk. „Yfir stúlkunni er sjarmi þar sem hún stendur í  síldargallanum með sjávarseltu í hárinu og dreymin augu,“ sagði þá í Morgunblaðinu.

Á sýningu í Reykjavík haustið 1941 var málverk frá því ári af þremur stúlkum við síldarsöltun, með fjöllin austan Siglufjarðar í baksýn „Síldarstúlkur,“ 125x150 sentimetrar. Sennilega hefur þetta sama verk verið í vinning um vorið í happdrætti stúdenta til ágóða fyrir Sumargjöf.

Björn Th. Björnsson listfræðingur var hrifinn af þessum myndum. „Síldarstúlkur Blöndals gætu ... ofur hæglega leyst af sér svunturnar og gengið beint inn á Café Royal í París,“ sagði hann í ritinu Íslensk myndlist.

Bátar og fleira

Gunnlaugur flutti til Íslands haustið 1940, eftir  nær aldarfjórðungs dvöl erlendis við nám og störf. Hann kom heim með hinni frægu Petsamóför Esju, ásamt listmálurunum Jóni Engilberts, Sveini Þórarinssyni og fleirum. Tvær Hólshyrnumyndir frá þessum árum heita „Frá Siglufirði,“ önnur merkt ártalinu 1940 (75x103 sm), hin 1943 (70x93 sm). Þá er til „Bátur á Siglufirði,“ frá 1943 (62x88 sm, gvass).

Sumarið 1955 sýndi Gunnlaugur rúmlega tuttugu olíumálverk í Barcelona á Spáni, fyrstur Íslendinga. „Sýningin vakti mikla athygli,“ að sögn Alþýðublaðsins. „Einkum þótti spönskum mikið til um modell-myndir Blöndals svo og myndir hans frá Siglufirði og síldarvinnu.“ Þeirra á meðal var Útvegsbankamyndin. Hún var einnig á stórri yfirlitssýningu í Reykjavík 1961, sýningu sem um tíu þúsund manns sóttu.

Þá er til mynd sem heitir „Siglufjörður,“ merkt 1960.

Loks má geta þess að síðasta árið sem Gunnlaugur lifði vann hann að málverki af Guðrúnu Björnsdóttur, sem áður er nefnd.

Siglufjörður var nægtabrunnur

Gunnlaugs Blöndal verður lengi minnst fyrir list sína. Meðal þekktustu verka hans eru ýmis málverk af stúlkum og konum svo og málverkið af Þjóðfundinum 1851, eitt af djásnum Alþingishússins.

Í blaðaviðtali árið 1961 sagði Gunnlaugur: „Ég hef ferðast um allt landið, að heita má, en annars hef ég dvalist einna mest á Siglufirði, fyrir utan Reykjavík náttúrulega. Bræður mínir bjuggu á Siglufirði og ég dvaldist þar oft á sumrin.“

Gunnlaugur Blöndal listmálari lést árið 1962. Í minningargrein var sagt að hann hefði valið sér „margbreytileg viðfangsefni, mannfólk, blóm og íslenska náttúru.“ Síðan sagði: „Siglufjörður var honum alltaf nægtabrunnur listræns innblásturs.“

- Jónas Ragnarsson tók saman. Heimildaskrá má fá hjá honum (jr@jr.is)

Altaristaflan í Siglufjarðarkirkju var afhjúpuð haustið 1937.

Málverkið „Konur í síldarvinnu“ sem var áratugum saman í afgreiðslusal Útvegsbankans á Siglufirði.