Síldarmolar

- eftir Jónas Ragnarsson

Siglufjörður var höfuðstaður síldveiðanna í áratugi


1903: Peningar inn á hvert heimili

Upphaf síldarævintýrisins er stundum miðað við söltun fyrstu hafsíldarinnar á Siglufirði laugardaginn 8. júlí 1903. Frásögn af þeim atburði er skráð eftir Óla Tynes síldarsaltanda í Siglfirðingi 17. og 31. mars 1944.

Þegar norska skipið, Marsley, kom að landi óskaði sendiboði frá Gránufélaginu eftir fundi með skipstjóranum og bauðst til að annast afgreiðslu skipsins og þar með að vinnulaunin yrðu tekin út í vörum í verslun félagsins. Skipstjórinn hafnaði þessu og greiddi fólkinu laun þess „upp á eyri í glerhörðum peningum. Þetta var nýlunda í Siglufirði,″ segir Óli. „Nú eru komnir peningar inn á hvert heimili á Siglufjarðareyri. Nýi tíminn hefur hafið innreið sína í þennan litla bæ.″

1906: Streymir frá heyskap

„Síldveiði Norðmanna hér við land fer nú aftur mjög vaxandi ár frá ári. Þeir halda sig mest við Siglufjörð og inn með Eyjafirði. Þar, á Siglufirði, voru um eitt skipti nýlega stödd í einu 200 útlend fiskiskip, bæði seglskip og gufuskip, langflest norsk,″ segir Ísafold 19. september 1906.

„Atvinnu veitir það íslensku verkafólki allmikla, einkum kvenfólki. En miður notasæl mun hún vera, bæði vegna þess að þetta er aðallega um heyannir, enda eru norskir fiskimenn auk þess orðlagðir fyrir slark og aðra óreglu, ekki síst drykkjuskap.″ Nokkru áður var sagt í sama blaði að svo mikil sókn væri í atvinnu á síldveiðistöðunum að „fólk streymi þangað hvaðanæva frá heyskap og öðrum nauðsynjastörfum og haldi því engin bönd.″

1912: Kverkað og saltað úr bing

Snorri Sigfússon námstjóri segir frá aðstöðu til síldarsöltunar á Siglufirði sumarið 1912 í bókinni Ferðin frá Brekku, en hann var þá síldarmatsmaður, m.a. hjá Gustav og Olav Evanger.

„Heldur þótti mér uppskipun á síldinni sóðaleg. Henni var ekið frá skipshlið í stórum hjólbörum upp bryggjuna og hellt úr börunum á pall og áttu stúlkurnar svo að kverka og salta úr þeim bing. Urðu þær að krjúpa við binginn meðan þær kverkuðu. Var þá kverkað með hníf, hnífurinn vafinn með bandi fram yfir mitt blað og þannig stungið oddinum í kverkina og kverksiginn rifinn frá; klippur komu seinna. Svo urðu stúlkurnar að lyfta stömpum fullum af síld upp á eins konar skammel, og salta úr stampinum í tunnuna.″

1918: Óskar í Bakka

Óskar Halldórsson hóf síldarsöltun á Siglufirði sumarið 1918, 25 ára, en árið áður hafði hann komið norður og brætt lifur. „Ég hefi margar góðar endurminningar frá Siglufirði öll þessi ár síðan ég kom þar fyrst,″ segir Óskar í viðtali í Sunnudagsblaði Vísis 6. september 1942. „Hafði ég lengst af söltunarstöðina Bakki, enda er ég lítt þekktur undir öðru nafni hér á Siglufirði en Óskar á Bakka. Það gekk misjafnlega þessi mörgu ár. Ég var stundum undir bakkanum og stundum ofan á honum.″

Óskar lést vorið 1953, tæplega sextugur. Í bókinni Íslenskar æviskrár segir að hann hafi verið „einhver umsvifamesti síldarútvegsmaður á landinu″ með bækistöðvar víða um land. Hann mun hafa verið fyrirmynd Íslandsbersa í Guðsgjafaþulu eftir Halldór Laxness.

1919: Ekkert annað en síld

Vísir birtir frétt um síldarævintýrið á Siglufirði 12. ágúst 1919: „Héðan er annars ekkert að frétta nema síld, síld og ekkert annað en síld! Hún er svo áfjáð að komast í land og ofan í tunnurnar og kaggana að hún ætlar mannfólkið lifandi að drepa og allir standa á hausnum við síldarverkun, hélugir af síldarhreystri og smitandi og glitrandi af síldarfeiti og síldarpeningum.″

Vísir segir að allir hafi lagt lið, „jafnvel bæjarins frúr og frökenar. Þó að maður sjái þær aðra stundina á götum bæjarins klæddar pelli og purpura þá eru þær kannske innan lítillar stundar komnar í klofháar rosabullur með sjóhatt á höfði og sauðskinnsvettlinga á höndunum og kverkitöngina að vopni.″

1924: Ólíklegt að allir fái vinnu

„Skipum fjölgar hér óðum og má segja að skip komi á hverjum klukkutíma, enda lágu hér í gær 92 skip og bátar. Er óvenjulegt að svo mörg skip séu komin hér um þetta leyti,″ segir Alþýðublaðið 17. júlí 1924. „Fólksstreymi hefur verið afarmikið hingað og er sumt bæði atvinnulaust og húsnæðislaust ennþá. Er ólíklegt að allir geti fengið vinnu hér sem komnir eru.″

„Síldaraflinn er að glæðast. Síldin er mögur og full af átu. Mjög fáir salta enn sem komið er. Síldin er komin fast upp að landi í smátorfum, en búist er við að gangan þéttist ef tíðin batnar og hlýindi koma.″

1933: Hjá Thorarensen

Alþýðublaðið segir 28. nóvember 1933 að Hinrik Thorarensen sé ekki aðeins þekktur sem læknir og lyfsali á Siglufirði heldur hafi hann rekið kvikmyndahús og kaffihús og margs konar greiðasölu. Um þá starfsemi hans segir blaðið þessa gamansögu:

Norskur sjómaður kom í fyrsta sinn til Siglufjarðar. „Hvar er bíó hér?″ spyr hann félaga sinn sem kunnugur var í bænum. „Hjá Thorarensen.″ „Hvar getum við fengið keypt áfengi hér?″ „Hjá Thorarensen.″ „Hvar getum við komist á ball?″ „Hjá Thorarensen.″ Félagarnir fóru á ballið. Norðmaðurinn lenti í slag út af stúlku og fékk nokkra áverka. „Hvar get ég nú fengið mig læknaðan?″ segir vesalings Norðmaðurinn. „Hjá Thorarensen.″

1935: Heimflutningur á kostnað ríkisins

„Síldveiðin hófst með fyrra móti og veiddist óhemju mikið, svo að síldarverksmiðjurnar höfðu eigi undan, en síldin óvenju feit og falleg. Söltun var þó, því miður, eigi hafin fyrr en 22. júlí, en þá dró svo úr veiði, að síldarlaust mátti kalla úr því. Olli þetta miklu atvinnuleysi og þá einkum og sérstaklega hér á Siglufirði, sem mestalla fjárhagslega afkomu sína á undir síldveiðum. Verkafólk, er hingað hafði safnast, eins og venjulega, stóð uppi bjargar- og úrræðalaust, og komst eigi heim nema með tilstyrk hins opinbera, og útgerðarmenn og sjómenn urðu fyrir stórtjóni,″ segir í Siglfirðingi 18. janúar 1936.

Síldarsöltunin á Siglufirði sumarið 1935 var aðeins fjórðungur þess sem var sumarið áður

1944: Hjarta landsins

Sveinn Björnsson heimsótti Siglufjörð laugardaginn 5. ágúst 1944, rúmum mánuði eftir að hann var kosinn fyrsti forseti íslenska lýðveldisins. Þegar Sveinn steig á land á Hafnarbryggjunni heilsaði hann mannfjöldanum „með nokkrum orðum og gat þess meðal annars að Siglufjörður væri hjarta landsins yfir sumarmánuðina vegna hins mikla atvinnurekstrar og framleiðslu hér,″ eins og það er orðað í Siglfirðingi.

Blaðið segir að heimsóknin hafi vakið mikla athygli, fjölmenni fagnaði forsetanum og haldnar voru veislur og fluttar ræður honum til heiðurs.

1948: Mörg skip

„Fjöldi skipa, innlendra og erlendra, var á höfninni hér um helgina. Í morgun voru hér 320 erlend veiðiskip og hafa nokkur bæst við í dag. Innlendu skipin eru á annað hundrað,″ sagði í Þjóðviljanum 24. ágúst 1948. „Vegna þessarar miklu landlegu hefur áfengisversluninni verið lokað og er því tekið á ýmsa lund.″

1955: Stærsta síld veraldar

„Stærsta síldin sem veiðst hefur í veröldinni, allt frá þeim tíma er menn tóku fyrst að stunda síldveiðar í upphafi vega, veiddist á Sléttugrunni í fyrradag. Risasíld þessi var 46,3 sentimetrar að lengd og 710 gr. að þyngd,″″ segir í Morgunblaðinu 29. júlí 1955.

Það var Hrafn Sveinbjarnarson sem fékk síldina í allgóðu kasti og fór með aflann til Siglufjarðar. Þar var úrskurðað að síldin væri tíu ára gömul og alíslensk að uppruna. „Var síldin látin þegar í stað í formalín og geymd til frekari rannsókna.

1962: Mesta síldveiðin

Þetta sumar „kom meiri afli á land en nokkru sinni fyrr á einni síldarvertíð,″ segir í Ægi 1. október. Alls veiddust 320 þúsund lestir af síld, eldra met var 235 þúsund lestir árið 1940.

Sumarið 1962 var saltað í 116 þúsund tunnur af síld á Siglufirði (um 12 þúsund lestir), en það var nokkru minna en árið á undan. Hins vegar sló bræðslan öll met, hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði voru brædd nær 550 þúsund mál (um 74 þúsund lestir) og 142 þúsund mál (um 19 þúsund lestir) hjá Rauðku.

Í Morgunblaðinu 24. júlí er haft eftir fréttaritaranum á Siglufirði að tveim dögum áður hafi 105 skip tilkynnt komu sína með 90 þúsund mál og tunnur. Daginn eftir tilkynntu 80 skip komu sína. Fréttaritari Vísis segir 23. júlí: „Saltað hefur verið á öllum stöðvum, en þær eru 22 í kaupstaðnum, á meðan fólk hefur getað staðið á fótunum.″ Þessi mikla veiði var fyrst og fremst þökkuð „hinum nýju tækjum sem skipin eru nú útbúin,″ segir í Vísi 28. ágúst.

1966: Nær helmingur útflutningstekna

Á síðari hluta fjórða áratugar tuttugustu aldar, á kreppuárunum, var hlutfall síldarafurða í heildarútflutningi þjóðarinnar um og yfir 30%. Meira en helmingurinn kom frá Siglufirði. Þetta er ekki síst athyglisvert í því ljósi að síldarvertíðin stóð aðeins í tvo til þrjá mánuði á ári.

Í bókinni Brauðstrit og barátta, eftir Benedikt Sigurðsson, má sjá að hundraðshlutfall síldarafurða af verðmæti útflutnings frá Íslandi varð hæst árið 1966, um 46%.

1968: Síðasta síldarsumarið

Sjötíu siglfirskar síldarstúlkur söltuðu 8. ágúst „fyrstu síld sem söltuð er hérlendis í sumar,″ segir í Alþýðublaðinu daginn eftir. Það var togarinn Víkingur sem kom með síldina, 240 tonn, af miðunum við Bjarnareyjar og var hún söltuð hjá Haraldi Böðvarssyni. Síðasta síldveiðiskipið sem kom með síld til söltunar á Siglufirði þetta ár var Hrafn Sveinbjarnarson, með 45 tunnur til Hafliða hf. „Siglfirðingum hefur reynst þetta sumar lélegasta síldarsumar sem þeir muna eftir,″ segir í Vísi 4. september.

Sumarið 1968 er talið marka lok síldarævintýrisins.

Siglufjörður við upphaf síldarævintýrisins.

Siglufjörður árið 1931.

Baksíða Morgunblaðsins 25. júlí 1959.

Forsíða Þjóðviljans 24. júlí 1962.

Og hér má sjá það sem allt snerist um.